139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði svo stuttan tíma til að rifja upp ár hinna glötuðu tækifæra, en ég gleymdi náttúrlega því máli sem við höfum barist hvað mest fyrir, og hv. þingmaður hefur verið mjög dyggur stuðningsmaður við líka ásamt okkur framsóknarmönnum, en það var í ársbyrjun árið 2009 sem við ræddum um sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól skuldugra heimila og fyrirtækja.

Hver er staðan í dag? Íslensk heimili eru of skuldsett sem kemur niður á greiðslugetu þeirra og í íslensku atvinnulífi hefur gengið allt of hægt að vinna úr skuldastöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þrátt fyrir gefin loforð ríkisstjórnarinnar. Það er mjög margt sem við hefðum getað gert betur á þessu tímabili. Það hefðum við mögulega getað gert með því að stunda öðruvísi vinnubrögð hér en mér sýnist að meiri hlutinn hafi því miður lítið sem ekkert lært á þeim tveimur og hálfa ári sem liðið er frá hruni.