139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður endaði andsvar sitt á því að ræða um framtíðina og að við ættum að horfa til hennar þegar kemur að málum sem þessum. Þetta er alveg hárrétt. Hv. þingmaður var sammála því að þau vinnubrögð að vera ekki búin að fá ítarlega lagalega úttekt og efnahagslega úttekt á frumvarpinu eru einfaldlega ófullnægjandi vinnubrögð.

Maður veltir því fyrir sér þegar farið er í stefnumótun hvort ekki sé betra að sú stefnumótun fari fram á grundvelli upplýsinga, rannsókna sem farið hafa fram, sem virðist vanta algjörlega í þetta frumvarp. Síðan vantar náttúrlega framtíðarsýn hjá ríkisstjórninni þegar kemur að stefnu í peningamálum, efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar. Ég og hv. þingmaður höfum haldið margar keimlíkar ræðu um það hve atvinnusköpun er gríðarlega mikilvæg á Íslandi í dag þegar við horfum upp á mikið atvinnuleysi og að mörg störf hafa glatast á síðustu tveimur og hálfa árinu.

Einn hv. þingmaður, Lilja Mósesdóttir, orðaði það ágætlega áðan hvað megi kalla þennan tíma, að þetta séu ár hinna glötuðu tækifæra. Tækifærin hafa svo sannarlega verið til staðar en við höfum því miður búið við ríkisstjórn sem er bæði sundurlynd, það er ekki mikil samheldni á þeim bænum, og reyndar er það svo innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þar logar nú allt stafnanna á milli.

Ég vil spyrja hv. þingmann að lokum í ljósi þess að maður heyrir um það að sum fyrirtæki, m.a. í útflutningsstarfsemi, séu farin að finna sér leið fram hjá höftunum, vilji ekki vinna innan þeirra, sem segir okkur það að verðmætasköpunin fari þá fram utan þess kerfis, utan íslensks efnahagslífs. Getur hv. þingmaður sagt mér hvernig hann sjái þá ástandið fyrir sér árið 2015?