139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður biður mig að spá. Ég sé fyrir mér að vonandi verði farinn að vænkast hagurinn, það verði komin önnur ríkisstjórn sem muni nýta tækifærin og þá muni ekki vera, eins og hv. þingmaður orðaði það réttilega áðan, ár hinna glötuðu tækifæra sem hafa verið síðan núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við.

Auðvitað er það alveg rétt sem hv. þingmaður bendir hér á og er margbúið að ræða í umræðunni og kemur fram í nefndarálitum frá minni hlutnum, auðvitað bregðast fyrirtæki við með þeim hætti að fara úr landi ef þau hafa tækifæri til þess. Það þýðir að menn færa starfsemina burtu sem gerir það að verkum að við töpum störfunum hér heima. Aðilar í hugverkaiðnaðinum, margir hverjir, og í framleiðslunni hafa tök á að gera það. Það hefur reyndar verið gert, stór fyrirtæki hafa farið. Það eru hinar dapurlegu staðreyndir þegar þetta er gert. Það gefur augaleið.

Svo virðist sem hæstv. ríkisstjórn vilji aldrei viðurkenna þær staðreyndir sem blasa við og menn sjá að eru að gerast, eins og til að mynda það sem kom fram í fréttunum í kvöld um auðlegðarskattinn, að fólk sem getur farið bregst þannig við. Það mun auðvitað fara úr landi til að losna undan þeirri ánauð að þurfa að borga skatta, fólk sem hefur jafnvel engar tekjur. Það er fyrirséð að nánast allt sem hæstv. ríkisstjórn er að gera er eintóm vitleysa og mun bara dýpka efnahagsvandann.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir um ástandið í ríkisstjórninni sem er með þeim hætti að þar eru sífellt innbyrðis víg. Það gefur augaleið að þegar menn standa í slíku stríði innbyrðis verður væntanlega minni árangur af því sem verið er að gera. Auðvitað þurfa menn að nýta alla krafta í það en ekki í að smala villiköttum, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það á sínum tíma. En það varð nú til þess, eins og einn hv. þingmaður orðaði það þegar hann hætti sem ráðherra, að heimilskettirnir voru settir út en villikettirnir teknir inn. Ég tel að það hafi verið mikil mistök (Forseti hringir.) að gera það.