139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á, að auðvitað auðveldar þetta í mjög mörgum tilfellum föngum að vera í nánari samskiptum við sína nánustu og það er gríðarlega mikilvægt í því skyni að hafa afplánun manneskjulegri ef svo má að orði komast.

Ég er ekki með tölur um það hversu mörgum þetta mun gagnast eins og staðan er. Við fjölluðum eitthvað um fjölda fanga þegar við tókum þetta fyrir og úr nefnd. Ég get aflað upplýsinga um það með skjótum hætti. Við tókum þetta úr nefnd í vor þannig að ég er ekki með það í kollinum. En það er alveg ljóst að það hafa verið langir biðlistar eftir því að geta hafið afplánun og mjög margir eru eiginlega með líf sitt í óþægilegri biðstöðu og geta ekki gert neinar ráðstafanir vegna þess að þeir bíða þess að hefja afplánun sem þeir vita ekki nákvæmlega hvenær getur hafist. Hér er vissulega verið að fjölga þeim úrræðum sem Fangelsismálastofnun hefur yfir að ráða og óneitanlega stytta biðtímann og er það vel.