139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég eins og margir aðrir hef fylgst með ársreikningum félaga undanfarin þrjú, fjögur ár. Það er með ólíkindum að hv. viðskiptanefnd skuli ekki taka á því vandamáli að hér var eign upp á 7.000 milljarða kr. í hlutafélögum samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra sem hvarf niður í 50 milljarða, þetta var í árslok 2007, og niður í mínus 1.400 milljarða árið 2009. Sem sagt, úr fimmfaldri þjóðarframleiðslu niður í núll og svo niður í mínus einfalda þjóðarframleiðslu. Allt samkvæmt ársreikningum, undirrituðum af endurskoðendum og samkvæmt fyllstu reglum Evrópusambandsins.

Finnst fólki þetta ekkert skrýtið? Ég vil spyrja hv. formann viðskiptanefndar hvort hún hafi ekki tekið á þessu og rætt þetta.

Enn fremur er enn þá inni ákvæðið, sem við tókum upp illu heilli samkvæmt tilmælum frá ESA, um að fyrirtæki mættu lána starfsmönnum sínum fyrir kaupum á hlutabréfum sem þýðir ekkert annað en það að fyrirtækið eykur eigið fé sitt, peningarnir fara í hring. Það lánar starfsmanninum, og lánið telst eign í fyrirtækinu, til kaupa á hlutabréfum sem ekki telst skuld. Þetta notuðu bankarnir til að ná sér í marga tugi milljarða sem eigið fé rétt fyrir lokin en engin tilraun er gerð til þess í hv. nefnd að breyta þessu. Þetta stendur enn þá þarna, ótakmarkað. Það er hægt að lána einum starfsmanni 2 milljarða kr. til kaupa á hlutabréfum þar sem peningarnir fara í hring.

Ég spyr hv. formann viðskiptanefndar hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni.