139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að ákvæðið sem ég nefndi gildir um hlutafélög almennt, meira að segja einkahlutafélög líka. Það gildir sem sagt fyrir allan markaðinn. Þetta var sett á að beiðni ESA og fór umræðulaust í gegnum Alþingi af því að það kom að beiðni ESA og ég er búinn að biðjast afsökunar á mínum hlut í því að skrifa undir það nefndarálit sem sagði nánast ekki neitt.

Hér er verið að ræða um góða stjórnarhætti, það truflaði mig vegna þess að ég fullyrði að ársreikningar sýna ekki rétta stöðu fyrirtækja og eru þeir þó haldreipi lítilla hluthafa, lánveitenda og birgja fyrirtækja. Þeir horfa á ársreikninginn og sjá, t.d. hjá Kaupþingi, ég nefni það sem dæmi, gífurlegan hagnað, gífurlegar eignir. Einu ári seinna er fyrirtækið gjaldþrota.

Hvað varð um eignirnar? Þær voru ekki til. Ég hef flutt í tvígang frumvarp um gegnsæ hlutafélög. Það er ekki einu sinni rætt.

Ég tel að menn þurfi og verði að taka á þessum alvarlega vankanti um ársreikninga, þeir eru hreinlega rangir og hægt er að fara fram hjá þeim. Hægt er að sýna eigið fé sem ekki er til með því að fara í margar kynslóðir fyrirtækja þar sem eitt fyrirtæki á í öðru og það á í þriðja og fjórða og það fjórða á í því fyrsta, þannig að peningurinn fer í hring.

Þetta er mjög alvarlegt og hefur ekki verið lagað og meðan það er ekki lagað og 40 eða 50 þúsund heimili í landinu hafa tapað hlutafé bótalaust er ekki von til þess að menn fari að fjárfesta aftur í hlutabréfum, svo einfalt er það.

Ég skora á hv. formann viðskiptanefndar að nefndin ræði þetta í hörgul og finni á þessu lausn.