139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður hv. viðskiptanefndar, fór yfir er hér fyrst og fremst um að ræða að innleiða tilskipun. Þessi tilskipun er ekki byltingarkennd, það er ekki hægt að halda því fram og óhætt að segja að það megi nálgast þetta út frá því sjónarmiði. Ég held hins vegar að það væri einnar messu virði að fara yfir athugasemdir hv. þm. Péturs Blöndal í nefndinni, það væri kjörið að gera það á milli umræðna. Þau sjónarmið sem hann hefur haft hér uppi hafa svo sannarlega verið áberandi í umræðunni eftir hrun en ekki var sérstaklega farið yfir þau í tengslum við þetta mál.

Nú ætla ég ekki að kveða upp úr með það hvort hægt sé að leysa þau mál sem hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir og eru auðvitað ekki lítil. Þetta er ákveðinn galli, ekki bara í ársreikningum heldur í rauninni í uppbyggingu fyrirtækja og var áberandi í bönkunum. Hv. þingmaður hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á þessu í tengslum við frumvarp sitt um gagnsæ hlutafélög sem ég er einn af flutningsmönnum að með honum.

Ég held að stærsta einstaki lærdómurinn sem við getum dregið af bankahruninu sé sá að við eigum að viðhafa gagnrýna hugsun. Við erum öll sammála um að það borgi sig frekar að fara betur yfir málin en að klára þau mjög hratt. Við lentum í gríðarlegum vanda vegna þess að við sáum ekki fyrir afleiðingar sumra tilskipana. Af mörgu er að taka en ætli það hafi ekki verið tilskipunin um innstæðutryggingarnar sem var okkur dýrust. Kannski var ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem lögfestu hana á sínum tíma sæju afleiðingarnar fyrir, en við fórum með þessa meingölluðu tilskipun Evrópusambandsins gagnrýnislítið, held ég að ég megi segja, í gegn. Við skulum þakka guði fyrir að breytingartillaga hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmundar Jónassonar var ekki samþykkt. Það hefði verið mesti skaði sem hefði getað komið fyrir íslenska þjóð en sem betur fer felldu skynsamir þingmenn hér þá tillögu.

Hvað sem því líður þá er innleiðing þessarar tilskipunar meinleysisleg, eins og hv. þingmaður Álfheiður Ingadóttir fór yfir. Það væri þó alveg þess virði að fara yfir sjónarmið hv. þm. Péturs Blöndal og ég held að það væri skynsamlegt að hv. viðskiptanefnd gerði það á milli umræðna.