139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

ársreikningar.

698. mál
[22:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum hérna er í sjálfu sér ekki stórvægilegt. [Kliður í þingsal.] Er hægt að fá einn fund í salinn?

Verið er að innleiða ákveðna tilskipun frá Evrópusambandinu og það er svo sem allt í lagi. En ég vil nota tækifærið af því hún fjallar um ársreikninga og góða stjórnarhætti, að benda á það að ársreikningar eru bara ekki réttir. Það hefur ekkert að gera með Ísland, frú forseti, þó menn reyni endilega að klína hruninu einhvern veginn á fyrrverandi ríkisstjórnir eða eitthvað slíkt og fara alltaf í skotgrafir. Þetta er ekki spurning um skotgrafir. Svona er þetta um allan heim, ársreikningar eru ekki réttir um allan heim. Ég fullyrði það. Það sem gerðist á Íslandi gæti gerst nákvæmlega á sama hátt í Þýskalandi eða Japan þar sem innri samflétting fyrirtækja er orðin þvílík. Enginn veit hver á í hverju.

Ég nefni sem dæmi að Deutsche Bank á í Dresdner Bank. Ég veit ekki hvað mikið. Og Dresdner Bank á í Deutsche Bank. Ef báðir bankarnir mundu víxla á eigin hlutabréfum og kaupa eigin hlutabréf til baka mundu efnahagsverðmæti þessara hlutabréfa hverfa úr atvinnulífinu, úr efnahagsreikningi bankanna vegna þess að eigin hlutabréf eru verðlaus. Þau hlutabréf sem Deutsche Bank á í sjálfum sér eru verðlaus. Menn geta gefið út eigin hlutabréf eins og þeim dettur í hug, það breytir engu. Bara þetta litla dæmi sýnir að hlutdeild þessara tveggja banka í Þýskalandi er einskis virði, þ.e. það sem er verðminna af báðum hlutdeildum.

Þetta er ekki bara eitt dæmi. Deutsche Bank á í velflestum stærstu fyrirtækjum heims og velflest stærstu fyrirtæki í heimi eiga í Deutsche Bank. Það er því mjög mikil samfléttun á eignarhaldi. Það er allt saman verðlaust. Það kom í ljós á Íslandi. Og mér finnst það svo dapurlegt að Evrópusambandið skuli ekki skoða með stækkunargleri hvað gerðist eiginlega á Íslandi því hér kristallast ákveðinn galli í hlutabréfaforminu sjálfu þegar hlutafélög eiga í hlutafélögum.

Ég vil nefna dæmi: Eitthvert fyrirtæki eða hlutafélag á í Landsbankanum og eigandi þess hlutafélags er hlutafélag í Lúxemborg og eigandi þess hlutafélags er hlutafélag á Tortóla og Landsbankinn lánar hlutafélaginu á Tortóla til að kaupa í fyrirtækinu í Lúxemborg og það fyrirtæki kaupir í Landsbankanum. Peningurinn fer í hring. Hann sést hvergi. Hann sýnir eigið hlutafé í Landsbankanum og í öllum þessum fyrirtækjum en peningurinn fór í hring og engin aukning hefur orðið á peningum í öllu dæminu.

Það sem þarf að gera er það sem er gert í Frakklandi. Þar þarf að upplýsa um alla eigendur sem eru lögpersónur að sérhverju hlutafélagi. Það kalla ég gegnsæ hlutafélög. Upplýsa þarf um þá þannig að hægt sé að rekja það þegar peningar fara í hring og að stjórnendur beri á því ábyrgð að það gerist aldrei. Þá gæti ég með björtum hug farið að fjárfesta aftur. Þá gætu aðrir Íslendingar farið að fjárfesta í hlutabréfum og sparað í hlutabréfum, sparað í atvinnulífinu. En á meðan menn geta leikið nákvæmlega sama leik og áður, að hola fyrirtækin innan, þora menn ekki að fjárfesta. Og það vill svo til að hinn vondi fjármagnseigandi, þ.e. sparifjáreigandinn sem leggur til hliðar, sá sem sparar, sá sem neitar sér um hluti, sýnir ráðdeild og sparsemi og kaupir annaðhvort hlutabréf eða leggur inn í banka, hann er sá sem stendur undir atvinnulífinu, annaðhvort með lánum eða með áhættufé. Þess vegna er allt stopp.

Ég ætla að biðja menn um að átta sig á því að traustið byggir á því að þessir litlu hlutafjáreigendur sem töpuðu — samkvæmt upplýsingum sem ég fékk töpuðu 60 þúsund manns 80 milljörðum — fjárfesti aftur. En á meðan minningin lifir fjárfesta þeir ekki aftur nema búið sé að breyta forsendunum og einhverjir útrásarvíkingar geta ekki holað fyrirtækin aftur að innan. Þeir sem báru mesta tjónið af hruni bankanna voru nefnilega hluthafarnir, litlu hluthafarnir sem höfðu lagt fram raunverulega peninga. Nú er ljóst að 80 milljarðar höfðu hækkað heilmikið áður, menn höfðu ekki lagt fram þá upphæð í upphafi en engu að síður höfðu þeir lagt fram töluvert mikla peninga. Þeir töpuðust.

Þegar menn vita að það sé hættulegt að leggja peninga í hlutafélög og að það sé lítið að marka eða ekkert að marka ársreikninga, sem við erum einmitt að ræða hér, þá geta menn ekki búist við neinu. Og birgjar meira að segja, þeir sem selja fyrirtækjum vörur, horfa líka á ársreikningana, þeir eru líka hvekktir því margir þeirra sáu ársreikninga sem voru dúndurgóðir en ekkert var svo á bak við. Ekkert. Ég held að sú nefnd á Alþingi sem fjallar um þetta verði að taka þetta mjög föstum tökum vegna þess að þetta er undirstaða þess að hér fari í gang fjárfestingar frá einkaaðilum. Þetta er undirstaða þess að menn kaupi hlutabréf. Það er undirstaða þess að hér skapist atvinna. Það er undirstaða þess að þeir Íslendingar sem flutt hafa til útlanda snúi til baka.