139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hvorugur forustumaður ríkisstjórnarinnar er við fyrirspurnatíma í dag. Ég geri alvarlega athugasemd við það að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki verið við fyrirspurnatíma í þessari viku, ekki á mánudaginn og ekki heldur núna. (Gripið fram í: Ekki um …) Hæstv. forsætisráðherra hefur sem sagt ekki svarað fyrirspurnum þingmanna á þessu haustþingi, hefur einungis komið hingað einu sinni til að ræða skýrslu um efnahagsmál og það er veruleg ástæða til að taka upp einstaka þætti sem hún hélt fram í þeirri skýrslu og spyrja hana sérstaklega um þá.

Ég bið virðulegan forseta að koma því á framfæri við hæstv. forsætisráðherra að hún komi til þings og svari brýnum spurningum þingmanna án tafar. Það er algjörlega óþolandi að hæstv. forsætisráðherra hunsi ítrekað þingið í fyrirspurnatíma eins og við sáum svo oft síðasta vetur. Ef þetta er það sem koma skal í vetur er ekki von á góðu.