139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert athugavert við það að þingmenn stjórnarandstöðunnar geri athugasemdir við það þegar hæstv. forsætisráðherra mætir ekki í fyrirspurnatíma og svarar spurningum sem þingmenn vilja bera fram við hæstv. forsætisráðherra. Það er sérstaklega eðlilegt í ljósi þess að á síðasta þingi var hæstv. forsætisráðherra býsna oft fjarverandi í þessum fyrirspurnatímum. Það er mjög eðlilegt að gerðar séu athugasemdir við það að hæstv. forsætisráðherra svari ekki spurningum sem snúa að þeirri ríkisstjórn sem hún er í forustu fyrir.

Það er enginn að óska eftir því að allir ráðherrarnir séu viðstaddir fyrirspurnatíma á mánudögum og fimmtudögum. Við óskum bara eftir því að á þessum tímum mæti hæstv. forsætisráðherra og svari spurningum sem við höfum fram að færa. Það er mikið að gerast í þessu landi og mörgum spurningum ósvarað, og ekki bara í atvinnumálum og málefnum heimilanna í landinu. Það ber svo við að forseti Íslands hefur nýverið (Forseti hringir.) skensað ríkisstjórnina og ætla mætti að hæstv. forsætisráðherra hefði einhverja skoðun á ummælum hans.