139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Sem áður fellur allt í ljúfa löð eftir að gamli skólastjórinn kemur hingað og agar bekkinn sinn. (Gripið fram í: Skólameistarinn.) Skólastjórinn, skólameistarinn. Mig langar samt til að gera athugasemd við orð hæstv. velferðarráðherra. Hann kvartar undan því að við spyrjum hann ekki nóg en þá get ég upplýst ráðherrann um að við höfum rætt það á vettvangi þingflokksformanna að breyta fyrirspurnatímum vegna einmitt þessa og hafa sérstaka fyrirspurnatíma fyrir hæstv. forsætisráðherra. Sá ráðherra ber sannarlega ábyrgð á ríkisstjórninni sem verkstjóri og þess vegna gefst oft ekki tækifæri til að spyrja alla hina um málefni þeirra í skömmtuðum tíma.

Hins vegar hlýt ég að gera athugasemd við það að ráðherra í ríkisstjórn Íslands kalli þennan stól og þennan sal sýningarglugga. Er það umræðustjórnmálahefð Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) að verki sem kallar lýðræðislegt samtal stjórnar og stjórnarandstöðu Alþingi, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, (Forseti hringir.) það að standa í sýningarglugga? Það finnst mér mjög ósmekklegt.