139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Kvikmyndaskóli Íslands.

[10:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var svolítið sérstök ræða sem hæstv. ráðherra flutti. Ég get ekki vikist undan því að nefna að mér finnst það frekar ósmekklegt að veitast að blaðamanni með þessum hætti þegar vitnað er í gögn sem liggja fyrir.

Mig langar að biðja hæstv. forseta að sjá til þess að þingmönnum verði útveguð þau gögn sem lögð eru til grundvallar þannig að þeir geti kynnt sér málið sjálfstætt. Mér sýnist að ekki sé vanþörf á miðað við þau gögn sem vitnað er orðrétt í í umræddri blaðagrein.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í Kvikmyndaskóla Íslands. Ég hef í sjálfu sér engan sérstakan áhuga á því rekstrarfélagi sem var um Kvikmyndaskólann eða hvernig því reiðir af. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að ekki sé verið að stunda kvikmyndanám á Íslandi. Ég furða mig á því að ríkisstjórnin, burt séð frá öllu biksinu í kringum þetta, hafi ekki gripið inn í til að tryggja að þessi kennsla færi fram. Það finnst mjög sérstakt.

Við þingmenn fengum nýlega tölvupóst frá þremur starfsmönnum Kvikmyndaskólans sem sent höfðu menntamálaráðuneytinu bréf sem þeir kölluðu sáttatilboð. Nú ætla ég ekki að leggja mat á það sáttatilboð en ég velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þeim hefur ekki verið svarað, ef eitthvað er að marka efni þessa tölvupósts. Mér finnst miklu skipta að þetta nám fari fram hér á Íslandi og því verði kippt í liðinn hið fyrsta. Þetta hangir að sjálfsögðu saman við þá miklu og flottu iðngrein sem kvikmyndagerð á Íslandi er. Ráðherra hlýtur að þurfa að segja okkur hvernig og hversu fljótt á að leysa þetta ólukkans mál.