139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

álver í Helguvík.

[11:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi svör. Ég get ekki ráðið annað en að hún sé bara tiltölulega sátt við aðkomu hæstv. fjármálaráðherra að þessu.

Ef hvatt er til orkusölu í annað verkefni en það sem fyrir liggur og er búið að gera samning um, m.a. af hæstv. iðnaðarráðherra, fer sú orka ekki til þess verkefnis sem búið er að gera samning um. Það liggur klárt fyrir og það er vísað til fjölmiðlaumræðu en umræðan í fjölmiðlum snerist á sama tíma öll um það af hálfu flokks hæstv. fjármálaráðherra að reyna að draga úr því að til væri næg orka á Reykjanesi og koma í veg fyrir það með öðrum hætti að hún yrði rannsökuð til hlítar.

Á meðan orkan er seld eitthvað annað fer hún sem sagt ekki í þetta verkefni. Því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Fyrst þetta er að áliti ráðherrans ekki óeðlileg stjórnsýsla, mun hún þá beita sér fyrir því að orka komi annars staðar að til álvers í Helguvík? Mun hæstv. iðnaðarráðherra beita sér fyrir því að Landsvirkjun komi þar inn í? Við erum með rammaáætlun þar sem neðri hluti Þjórsár er samþykktur í nýtingarflokk. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að sú orka komi í álver í Helguvík?