139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Já, ég tek undir með forseta varðandi þá sem eru úti í bæ, eru ekki á þingi og geta ekki varið sig í ræðustóli þingsins. Hér var ósmekklega að blaðamönnum vegið.

Varðandi þá beiðni sem hefur komið fram af hálfu varaformanns okkar sjálfstæðismanna er hún mjög eðlileg. Ég held að það sé mikilvægt að fá fjármálaráðherra hingað í þing, ekki síst til þess að fá viðhorf þingmanna Samfylkingarinnar sem á stundum vilja kalla sig atvinnulífsmegin, og stundum frjálslynda, gagnvart því hvernig fjármálaráðherra hefur unnið í málinu varðandi Helguvík og uppbyggingu á Suðurnesjunum.

Ætla þessir þingmenn Samfylkingarinnar að kyngja endalaust þessari hindrunarpólitík Vinstri grænna? Og hver eru skilaboð þessara þingmanna og Samfylkingarinnar til samfélagsins, til þeirra sem eru atvinnulausir, til þeirra 15% sem eru atvinnulaus á Suðurnesjunum? Ætla þeir að kyngja þessu (Forseti hringir.) endalaust? Það er sýnilegt núna að Vinstri grænir eru þeir sem (Forseti hringir.) eru að koma í veg fyrir frekari atvinnusköpun hér á landi.