139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:38]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kem hér upp undir liðnum um fundarstjórn forseta til að gera athugasemdir við þessa dagskrá sem er orðin mjög óljós. Í dagskránni sem var dreift í morgun er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslum um ein fimm mál að loknu þessu pexi sem hér er í gangi. Það var sent SMS á þingmenn um kl. 10 og sagt að atkvæðagreiðslur yrðu kl. 15 í dag. Ég vil fá að vita hvort þessar atkvæðagreiðslur sem hér eru tilgreindar standi núna eða hvort þeim hafi verið frestað til kl. 15. Ef þær eiga að standa núna lenda þær saman við nokkuð sem heitir orðið óformlegur fundur efnahags- og skattanefndar um gjaldeyrismál og tollalög sem er boðaður kl. 11.55. Það er ekki til neitt í þingsköpum sem heitir óformlegur nefndarfundur og ég óska þess að formaður eða varaformaður efnahags- og skattanefndar geri grein fyrir því máli. Þetta er eitthvert samkomulag sem náðist í gærkvöldi um gjaldeyrismálin og það var haldinn einn óformlegur fundur í morgun um málið sem eingöngu sumir nefndarmanna voru boðaðir á. Stjórn þingsins virðist (Forseti hringir.) vera komin í mikinn ólestur og ég óska eftir því að hæstv. forseti geri hlé á þingfundi og ráðfæri sig frekar við yfirstjórn þingsins um það með hvaða hætti þetta þing gengur fram.