139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru farnir að tíðkast sérkennilegir siðir á þessum morgni. Þegar við þingmenn fundum að því að hæstv. fjármálaráðherra væri fjarstaddur fyrirspurnatíma var okkur sagt að við gætum þakkað fyrir, það hefði sést til hæstv. forsætisráðherra í umræðum á föstudaginn og það væri sennilega nógu gott fyrir okkur. Jafnframt var okkur sagt að það væri til nútímafjarskiptatækni til að ná til ráðherra þannig að þeir þyrftu ekki að ómaka sig upp í ræðustól Alþingis.

Nú síðast gerist það að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir bregst við eðlilegri ósk um að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað og flytji munnlega skýrslu um alvarlegt mál með því að reyna að leiðbeina okkur um það hvernig hægt sé með öðrum hætti að afla upplýsinga eftir höfði hv. þingmanns.

Ef hv. þingmaður hefur áhuga á að upplýsa þetta mál á þessum forsendum sem hún lagði til gerir hv. þingmaður það auðvitað sjálfur. Hér er hins vegar um að ræða mjög alvarlegt mál, hér eru upplýsingar sem eru byggðar á gögnum úr fjármálaráðuneytinu — og hvernig bregðast þingmenn Vinstri grænna við? Jú, með því að reyna að skjóta sendiboðann, ráðast á blaðamanninn. Það er nú stórmannlegt (Forseti hringir.) eða hitt þó heldur.