139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

351. mál
[12:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir andsvar hennar. Það er gott að heyra það frá þingmanninum að hún sé sammála því sem ég var að ræða um. Ég vil kannski bæta því við að þetta var mjög harkaleg áminning fyrir okkur öll (Gripið fram í.) en hún var kannski að einhverju leyti líka þörf. Við verðum að hafa það í huga að við berum líka sjálf ábyrgð á því sem við gerum þannig að við tökum ekki öllu trúanlega sem er fullyrt við okkur. Fyrir hrun var, mundi ég segja, einn af kostum Íslands hvað var mikið traust í samfélaginu en ég held það hafi líka verið einn af göllunum hve fólk var of tilbúið að treysta öðrum fyrir eignum sínum, verðmætum, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft að treysta svo mikið.

Við þurfum að finna eitthvert jafnvægi á milli þess að treysta eins og staðan er kannski núna þar sem er allt of mikið vantraust í samfélaginu yfir í það sem var áður þar sem traustið var allt of mikið. Í frumvarpinu er einmitt lagt til að viðskiptavinum verði veittur aukinn aðgangur að upplýsingum um starfsemi sjóðanna. Þar með sendum við þessi skilaboð til viðskiptavinanna: Hér eru upplýsingarnar og þið fáið aðgang að þeim en það er hins vegar ykkar að lesa og kynna ykkur hvað nákvæmlega þið eruð að kaupa í gegnum þessa sjóði.

Við erum að reyna að gera okkar og ég fagna því sem hv. þingmaður sagði að við munum líka gæta að hlutverki okkar, að við séum ekki bara löggjafarvaldið heldur að við höfum líka ákveðna eftirlitsskyldu með eftirfylgni í því að farið sé eftir þeim lögum sem við setjum.