139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir beiðni hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar vegna þessa opna fundar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ef til vill með utanríkismálanefnd. Það er í raun aukaatriði í þessu máli hvort það eru tveir mánuðir síðan beiðnin kom eða rétt um mánuður síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd samþykkti að óska eftir þessum fundi því að þetta er algerlega í takt við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, virðulegi forseti. Ég held að það þurfi að taka þetta upp á breiðari vettvangi við hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki boðlegt að þeir ráðherrar sem komu fram og ætluðu að breyta vinnubrögðum í þinginu, efla gagnsæja umræðu og stjórnsýslu skuli hunsa fundarbeiðni nefnda þingsins, hunsa það að koma fyrir nefndir þingsins til að gera grein fyrir ákveðnum málum. (Gripið fram í.) Það er algerlega óboðlegt en þetta er það sem við verðum vitni (Forseti hringir.) að hjá hæstv. ríkisstjórn núna ítrekað. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin og hæstv. ráðherrar (Forseti hringir.) virðast ekki geta horfst í augu við þann sannleika sem við okkur blasir (Forseti hringir.) í samfélaginu.