139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður spyr um skoðanaskipti nefndarmanna hvað þetta varðar þá urðu þau skoðanaskipti á þessum fundi rétt áður en hv. þingmaður lauk máli sínu milli mín og hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, hins ágæta nefndarmanns iðnaðarnefndar — iðnaðarnefnd er reyndar ágætlega skipuð. Hún mundi betur en ég umræðuna sem þarna fór fram, við ræddum einmitt ábendingu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ástæðan fyrir því að þetta er ekki skilgreint í 1. gr. er sú að hvergi er minnst á fossa í lögunum. Þess vegna kemur það ekki þarna inn.