139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[15:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og legg áherslu á að ég deili í öllum meginatriðum þeim sjónarmiðum sem hann setti fram hér. Ég vil leggja áherslu á þann skilning sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til haft og mun halda áfram á grunnhugtökum í þessu efni.

Ég gerði að umtalsefni við hv. formann nefndarinnar áðan skilgreiningar á orðum sem ég tel raunar mjög mikilvægt þegar við ræðum um verðmæti, hvort heldur þau eru í einkaeign eða í almenningseigu, þó svo að það kunni að virka töluvert skringilegt í umræðunni, eins og að ræða hvert innihaldið í orðinu „foss“ skuli vera. Þegar við ræðum svona stórt mál er þetta engu að síður ákveðið grundvallaratriði þegar kemur að spurningunni um hversu langt eigi að ganga í nýtingu þeirrar auðlindar sem í rennandi vatni felst. Ég vildi inna hv. þingmann eftir skilningi hans á því orði en þó ætla ég að bæta um betur því að í þeim frumvörpum sem Alþingi hefur verið að vinna með frá stjórnsýslunni koma fram ýmsar skilgreiningar og orðskýringar og þær eru margar hverjar mjög merkilegar. Umhverfisnefnd hefur fengist við mörg orð á þessu sviði og minni ég á umræðu frá yfirstandandi þingi um orðið „vatnshlot“. Í þessu frumvarpi er að finna enn eitt orðið, í 26. tölulið 1. gr., sem er „vatnsleg“. Ég skal alveg viðurkenna að mér finnst þetta mjög skringilegt orð, sérstaklega þegar ég les skýringuna á því líka, og ég inni hv. þingmann eftir umræðu nefndarinnar um þetta heiti.