139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[16:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Jafnvel þótt ég og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins værum öll af vilja gerð til þess að greiða fyrir þingstörfum hér eftir sem hingað til er hálfóþægilegt að ætla sér að fara í atkvæðagreiðslu um það hvort þingfundur eigi að standa lengur eða ekki þegar við erum á fundi með hæstv. forseta um það hvernig fyrirkomulag þingstarfanna verður í nánustu framtíð. Ég óska því eftir því að forseti upplýsi okkur um hvað hún hyggist fyrir með þingstörfin. Þangað til get ég ekki samþykkt það að greiða fyrir lengri þingfundi fram í nóttina þegar við vitum ekki hversu lengi, hversu mikið og um hvað eigi að tala. Hér eru á dagskrá ýmis ágreiningsmál, stjórnarráðsfrumvarpið batnar ekkert þó að það sé rætt um miðja nótt. Ég lít því svo á að þetta sé allt saman frekar óljóst og greiði atkvæði gegn þessari tillögu.