139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[16:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum komin á gamalkunnar slóðir í þinginu að greiða atkvæði um hvort hér þurfi kvöldfundi til að, ja, ég veit ekki hvort á að kalla það að klára mál, í það minnsta ætlum við að halda áfram að tala um mál.

Það sem mér finnst … [Hlátrasköll í þingsal.] Hv. þm. Álfheiði Ingadóttur finnst greinilega fyndið að talað sé um mál en þannig er það yfirleitt, það er lýðræðislegur réttur þingmanna að ræða málin. Það væri mjög gott ef við hefðum það ekki alltaf á tilfinningunni, þingmenn, að störfin hér séu eins og einn hrærigrautur. Það væri ágætt ef hér væri einhver stefna í því hvernig ljúka ætti þeim dögum sem eru þessi septemberstubbur sem er kallaður svo. Það vantar. Ég er algjörlega á móti því að við notum kvöldin til að funda hér meðan stjórnarmeirihlutinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara í þessum málum.