139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það kann vel að vera að menn séu orðnir svo þreyttir á deilunum um þessi grundvallaratriði, að þær hafi tekið þá orku eða þann tíma frá þeim ágætu einstaklingum og stofnunum sem unnu að frumvarpinu að aðrir þættir hafi kannski fallið meira í skuggann. Ég get tekið undir að mér finnst það ekkert ósennileg skýring hjá hv. þingmanni, alls ekki.

Að sama skapi legg ég traust mitt á það að við framkvæmd þessara laga, ef þau ganga eftir, verði þessir agnúar sniðnir af. Ef það er ekki hægt með setningu reglugerðar hljótum við að fá tillögu að lagabreytingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, væntanlega þá í gegnum ráðuneytið sem mun stýra þessari vinnu, þess efnis að þær kunni að verða til þess að sníða af þá agnúa sem valda óvissu í samskiptum þessara aðila.

Að þessu leyti get ég alveg tekið undir að lagasetningin sé ekki nægilega vönduð. En ég vil trúa því í ljósi þeirrar samstöðu sem um þetta mál hefur verið að það sé og muni verða vilji til þess að sníða af þá agnúa sem kunna að koma upp en lúta ekki að grundvallaratriðum heldur hreint og klárt að þeirri útfærslu sem þarf að vera klár til að lögin geti gengið óbrjáluð eftir í meðförum mannanna.