139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Þrátt fyrir hvað vatnalögin frá 1923 eru lífseig er ljóst að þetta frumvarp felur í sér töluverða breytingu á núgildandi vatnalögum, nr. 15/1923, og mun samhliða fella niður vatnalög, nr. 20/2006, sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2006, en þess ber að geta að þau hafa aldrei tekið gildi. Gildistöku þeirra var frestað í ljósi þess að menn voru ekki á eitt sáttir og töldu að kanna þyrfti betur samræmi laganna við ákvæði annarra laga ásamt fyrirliggjandi tilskipun ESB um stjórn vatnamála. Niðurstaðan hefur orðið sú, að sinni að minnsta kosti, að skilið er á milli nýtingarþáttarins annars vegar og verndarþáttarins hins vegar.

Þess ber að geta að nýsamþykkt er á Alþingi frumvarp til laga um stjórn vatnamála sem ætlað er að innleiða vatnatilskipun ESB en hún fjallar að meginhluta til um vernd vatns auk þess frumvarps sem fjallar um nýtingu vatns. Nýting vatns er undir stjórn hæstv. iðnaðarráðherra en verndun vatns undir stjórn hæstv. umhverfisráðherra.

Síðan ber að geta þess að stór þáttur af þessu frumvarpi er breyting á stjórnsýslu vatnamála þar sem stjórnsýsla vatnsnýtingarinnar verður nú á forræði Orkustofnunar, sem tilheyrir iðnaðarráðuneytinu.

Ég tel að við þingmenn eigum að fagna því að náðst hefur samkomulag sem felst í því nefndaráliti sem iðnaðarnefnd leggur nú fyrir þingið. Þó að þar séu þingmenn á því nefndaráliti með fyrirvara eru þó allir þingmenn sem í iðnaðarnefnd sitja, þvert á flokka, sammála um þá niðurstöðu sem menn hafa hér komist að. Ég held hins vegar að ástæða sé til að fara aðeins yfir hvernig þetta frumvarp til laga samræmist öðrum lögum og hvernig það skarast.

Ég held að fyrst og síðast þurfi að velta fyrir sér hvernig frumvarpið skarast á við nýsamþykkt skipulags- og mannvirkjalög. Það er ljóst að ef eingöngu á að ráða för það sem stendur í frumvarpinu um að það nái til þess sem önnur lög gilda ekki um, er mjög óljóst fyrir borgarann hvað felst í því í raun og veru. Það kann að vera að til móts við þessar hugleiðingar mínar verði hægt að koma með reglugerð en ég tel ekki af hinu góða að lagfæra gallaða lagasetningu með reglugerðum einstakra ráðherra.

Fyrst og síðast þarf að skoða hvort frumvarpið sé í samræmi við IV. kafla skipulagslaga sem fjallar um framkvæmdaleyfi og um X. kafla sömu laga sem fjallar um þvingunarúrræði og óleyfisframkvæmdir. Það hlýtur að vera skylda löggjafans með tilliti til þess að tryggja hag borgaranna að hafa það alveg skýrt hvert sé hlutverk stjórnvalds sem á aðkomu að ákvörðunum eins og t.d. um framkvæmdir. Það getur ekki verið að borgarinn eigi að þurfa að leita í reglugerð og geti í raun og veru hvergi fundið hvaða leiðir hann hefur til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Það virðist vera, frú forseti, að ýmsar greinar þurfi að skoða frekar. Ef við lítum á 79. gr. þarf að skoða, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom að hér áðan, 5. mgr. þar sem lagt er til að Orkustofnun skuli taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að tilkynning berst stofnuninni hvort hún hyggist banna tilkynntar framkvæmdir eða setja skilyrði fyrir þeim. Jafnframt segir að ef athugasemdir Orkustofnunar berist ekki framkvæmdaraðila innan frestsins skuli litið svo á að engar athugasemdir séu gerðar við fyrirhugaðar framkvæmdir.

Þá hlýtur, virðulegur forseti, að þurfa að skýra nokkuð nákvæmlega hvaða framkvæmdir samkvæmt vatnalögum eru tilkynningarskyldar en ekki leyfisskyldar. Það þarf að kanna hvort samræmi er á milli frumvarpsins og þeirra reglna sem gilda samkvæmt skipulagslögum um útgáfu framkvæmdaleyfa. Það er alveg ljóst að umrædd 5. gr. getur ekki haft þá afleiðingu að framkvæmdaraðili geti sniðgengið umsóknarferli hjá viðkomandi sveitarfélagi ef framkvæmdin er á annað borð framkvæmdaleyfisskyld.

Þetta, frú forseti, er meira en lítið óljóst. Það hlýtur að vera og skipta máli í náinni framtíð að menn vandi þetta og fari yfir. Það að við skulum komast þvert á flokka að sameiginlegri niðurstöðu um breytingar á frumvarpi til laga um vatnalögin má ekki leiða af sér óljós valdmörk stjórnsýslustiga eða stofnana sem verða til þess að borgarinn lendir í vandræðum með hver sé réttur hans, hver sé skylda hans, til hverra beri að leita og hverjir þurfi að samþykkja. Ég held að í það minnsta þurfi að orða það sem við er átt á meira afgerandi hátt.

Mig langar að vitna í nefndarálit iðnaðarnefndar í ljósi þess að ég er að tala um að þetta geti skarast á við ýmis önnur lög og það sé dálítið óljóst. Við erum þá fyrst og síðast að tala um framkvæmdir, skipulagsvald sveitarfélaganna og þá sem þurfa að veita umsagnir um skipulagsmál sveitarfélaganna og hugsanlega heimila framkvæmdir o.s.frv.

Á bls. 7 í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Eftirlit Orkustofnunar snýr í fyrsta lagi að leyfisskyldum aðgerðum, í öðru lagi að þeim aðgerðum sem skilyrði hafa verið sett fyrir og í þriðja lagi er eftirlit heimilt með öllum aðgerðum ef tilefni gefast.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Eftir sem áður eru framkvæmdir í og við vötn háðar leyfum og eftir atvikum eftirliti samkvæmt t.d. skipulagslögum, mannvirkjalögum og lögum um lax- og silungsveiði og þar með aðkomu viðkomandi stjórnvalda.“

Klárlega er þetta ekki tæmandi upptalning á þeim lögum sem vatnalögin geta tengst en í mínum huga verður löggjafinn með einhverjum hætti að taka skýrari afstöðu til þessarar skörunar og hugsanlegrar samræmingar á lögum þegar um þetta er fjallað. Áður en þetta frumvarp til breytinga á lögum nr. 15/1923 verður að lögum legg ég til að hv. iðnaðarnefnd taki málið inn aftur á milli 2. og 3. umr. og gaumgæfi þá þætti sem ég hef nefnt og þá sem hafa verið nefndir í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Kann að vera að þar komi að góðu fyrri störf þessara þingmanna sem hafa sinnt hlutverki sveitarstjórnarmanna og þekkja þar með vel til þess stjórnsýslustigs og skipulagsmála og tala af dágóðri reynslu og þekkingu. Þeir geta þar af leiðandi horft á þetta frá sjónarhóli fleiri stjórnsýslustiga en ríkisins annars vegar og hins vegar Orkustofnunar, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og síðan sveitarfélagsins og hvernig þetta spilar saman.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að við förum yfir þetta. Ég held líka að það sé vert að skoða 78. gr., þar sem talað er um yfirstjórn og þá er líka hægt að horfa til þess í hverju stjórnsýsluhlutverk Orkustofnunar er og verður fólgið. Í 78. gr. kemur fram að iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Orkustofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem þau mæla ekki fyrir um annað, þ.e. lögin. Síðan stendur að stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli þessara laga séu kæranlegar til iðnaðarráðherra. En jafnframt stendur í 78. gr., með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar samkvæmt lögum þessum. Umhverfisráðherra er heimilt að fela Umhverfisstofnun stjórnsýslu þar að lútandi. Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar sem eru teknar á grundvelli laga þessara sæta kæru til umhverfisráðherra.“

Hvergi í frumvarpinu, frú forseti, er það orðað að þessar tvær stofnanir, Umhverfisstofnun og Orkustofnun, þurfi með einhverjum hætti að vinna saman í málum sem tengjast munu þessu frumvarpi um breytingu á lögum, verði það að lögum í meðförum þingsins. Ég held því að fara þurfi yfir og skilgreina hvernig stjórnsýslu Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar eigi að vera háttað og hvernig eigi að tryggja samvinnu þeirra til að koma í veg fyrir tvíverknað og í veg fyrir það að borgarinn þurfi með einum eða öðrum hætti að leita til tveggja stofnana með sama mál af því að ekki er nægjanlega skýrt hvert leita skuli eða hverra er að gefa þær umsagnir sem hugsanlega verður kallað eftir.

Ég ætla líka að gera það að umtalsefni að fyrir þinginu liggur frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráðið. Í því frumvarpi og bandorminum sem því fylgir er skýrt og skorinort tekið fram að heiti ráðuneyta eigi ekki að vera skráð og þau eigi að vera ákvörðun hvers forsætisráðherra eða hverrar ríkisstjórnar sem við völdum tekur eftir hverjar kosningar. Hér fáum við þingmenn í hendur frumvarp sem lagt er fram af hálfu framkvæmdarvaldsins, þaðan kemur það og það er vel, þar sem heiti ráðherranna eru inni þrátt fyrir að ekki sé ljóst hvort iðnaðarráðuneyti og/eða umhverfisráðuneyti verði til þegar frumvarp til laga um breytingar á Stjórnarráðinu hefur náð fram að ganga, nái það fram að ganga í núverandi mynd. Ég gerði athugasemd við áþekkt atriði þegar við ræddum fullgildingu Árósasamningsins vegna þess að þar var umhverfisráðherra tilgreindur sem aðili en ekki eingöngu ráðherra.

Þessar þversagnir í frumvörpum koma mér verulega á óvart. Ég velti því fyrir mér hvernig standi á því að menn leggi fram frumvörp þar sem þeir ætla sér að taka út öll heiti en leggja þess á milli fram frumvörp þar sem heiti einstakra ráðuneyta eru tilgreind og samhliða eru tilgreind heiti einstakra undirstofnana sem tilheyra þeim ráðuneytum í dag. Að mínu mati er 78. gr., miðað við það frumvarp sem liggur fyrir um breytingar á Stjórnarráði, á skjön við það sem hæstv. forsætisráðherra er í það minnsta að velta fyrir sér í því máli. Og hefði kannski einhvern tíma einhverjum dottið í hug að þar réðu för einhvers konar einræðistilburðir að ætla að fela það einum einstaklingi sem í forsætisráðuneytinu situr að ákveða hvaða ráðuneyti verða starfandi í komandi ríkisstjórnum og hvaða heiti þau eigi að bera.

Þetta eru þeir þættir sem ég tel að skipti máli. Ég legg til, virðulegur forseti, og óska eftir því að málið fari aftur til nefndar að lokinni 2. umr. Ég bið um að kannað verið hvernig þetta frumvarp skarast á við eða fer að einhverju leyti í bága við t.d. skipulagslög. Mér er kunnugt um að það liggja fyrir drög að reglugerð um framkvæmdaleyfi sem samin er á grundvelli nýrra skipulagslaga. Það er ljóst að þetta frumvarp kann að ganga þvert á lagasetningu á sviði skipulagsmála og þau drög að reglugerð sem liggja fyrir.

Það getur verið að þingmenn úr öllum flokkum séu glaðir yfir því að hafa náð lendingu í erfiðu máli, og við erum raunverulega að ná þeirri lendingu með því að fella niður vatnalögin frá 2006 sem aldrei hafa tekið gildi. Það má hins vegar ekki verða til þess að við búum hugsanlega til einhvern óskapnað sem hefur í för með sér óvissu, lagalega óvissu fyrir borgarana. Okkur ber að setja fram skýr lög. Það á ekki alltaf að þurfa að útskýra lögin með reglugerðum úr hverju og einu ráðuneyti.