139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála því að hv. iðnaðarnefnd hefur reynt að einfalda hlutina eins og hún gat innan þess ramma sem hún hefur. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni sem kom fram í ræðu hennar að flækjustigið er nægilegt og dugar að nefna þá bæði Orkustofnun og Umhverfisstofnun. Þó að búið sé að fella út stjórnsýsluáhrif Umhverfisstofnunar eru ýmsar skaranir við hana en auðvitað eru skaranir mestar á sviði skipulagsmála og þar af leiðandi á milli skipulagsvaldsviðs sveitarfélaganna og Orkustofnunar.

Þingmaðurinn nefndi 79. gr. og þó að búið sé að laga hana mátti skilja hana áður þannig að ekki væri hægt að fara til að mynda í lagfæringar á veitustofnunum eða veituæðum öðruvísi en að tilkynna það til Orkustofnunar og bíða eftir leyfi. Það er rétt sem sem hv. þingmaður nefndi um að skilgreina þurfi hvað sé meiri háttar eða minni háttar, því að auðvitað liggur í augum uppi að ekki er hægt að bíða í fjórar vikur eftir því að lagfæra hluti.

Þarna finnst mér alveg skorta sjónarhól þess sem hefur starfað að sveitarstjórnarmálum og áttar sig á því að þegar svona kemur upp á í veitustofnunum sveitarfélaga þarf að bregðast við einn, tveir og þrír. Að því gefnu tek ég líka undir þær óskir þingmannsins að málið fari til nefndar á milli 2. og 3. umr. En ég velti fyrir mér varðandi 79. gr. hvort þingmaðurinn hafi einhverjar hugmyndir að lausnum í því sambandi. Það er ljóst að ef við ætlum að klára þetta í næstu viku hefur nefndin ekki sérlega mikinn tíma og sjálfsagt eru allar hugmyndir vel þegnar um hvernig væri hægt að skilgreina þetta betur en nú er gert.