139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á að taka undir það sem hv. þingmaður sagði hér í lok ræðu sinnar, það er mikilvægt að hv. iðnaðarnefnd taki málið til skoðunar á milli 2. og 3. umr., sérstaklega í ljósi þeirrar samstöðu og sáttar sem hefur verið í þeirri nefnd við vinnslu frumvarpsins.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson út í atriði sem ég rakst á í nefndarálitinu sem allir hv. þingmenn í iðnaðarnefnd skrifa undir, reyndar fjórir með fyrirvara en látum það liggja á milli hluta. En mér finnst að kaflinn um stjórnsýsluna mætti vera markvissari. Þar kemur fram að það sé annars vegar hæstv. umhverfisráðherra sem fari með hluta af framkvæmd laganna og hins vegar iðnaðarráðherra. Við höfum oft þurft að taka lög upp á þinginu sem eru kannski ekki nógu skýr. Þegar menn fara í framkvæmdir eins og við þekkjum er oft verið að kæra og þar fram eftir götunum, þannig að það er mjög mikilvægt að þessi skil séu alveg skýr og líka kannski í ljósi þess að næsta mál á dagskrá, ef ég man rétt, eða þarnæsta, er einmitt Stjórnarráðið þar sem færa á málaflokka á milli. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að hv. iðnaðarnefnd fari yfir þennan hluta málsins, þannig að það séu alveg skýr skil um það hverjir fjalla um málaflokkinn.

Orðalag er líka svolítið sérkennilegt þar sem lagt er til að Orkustofnun hafi eftirlit og heimild með aðgerðum „ef tilefni gefast“. Það eru svona orð og svona setningar sem hægt er að toga í allar áttir. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að það sé mjög mikilvægt að hv. iðnaðarnefnd fari líka sérstaklega yfir þessa hluti.