139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á vatnalögum sem mikið hefur verið rætt á undanförnum árum hér á þinginu, og sýnist sitt hverjum um það. Menn hafa haft sterkar skoðanir á því hvað það hefur þýtt og við vitum að gildistöku vatnalaga hefur ítrekað verið frestað. Síðan hefur verið farið í þá vinnu í hv. iðnaðarnefnd að reyna að sætta sjónarmið og fá aðila til að ná saman, stjórnmálaöflin. Því ber að fagna að þessi niðurstaða skuli hafa náðst. Það er mjög mikilvægt að það hafi gerst. Ég vil þakka hv. iðnaðarnefnd og þá kannski sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Kristjáni L. Möller, að þessi niðurstaða skuli hafa náðst og að við skulum vera að fjalla um þetta mál í dag.

Það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir einhverjum missirum að verið sé að fjalla um vatnalög og að allir hv. þingmenn iðnaðarnefndar hafi skrifað undir álitið þótt fjórir séu reyndar með fyrirvara. Þeir fyrirvarar skipta þó ekki öllu máli, snúa kannski að frekar smávægilegum atriðum. Aðalatriðið er að sátt og samstaða hefur náðst eftir áralangar deilur sem hafa klofið stjórnmálaflokka í herðar niður. Menn hafa deilt hart um þetta mál en það virðist vera komið í þann farveg að menn geti náð sátt um það. Því ber að fagna sérstaklega og ítreka ég þakkir til hv. iðnaðarnefndar.

Ég vil í örstuttu máli koma að þeirri reglugerðarsetningu sem farið verður í. Þegar frumvarp er samþykkt eru ákveðnir hlutir oft skildir eftir sem á þá að útfæra nánar í reglugerð. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að menn hafi talað um að það sé kannski óeðlilegt framsal á valdi frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Það er ekki alltaf sem framkvæmdarvaldið hefur gengið fram á þann hátt að hv. þingmenn hafi getað sætt sig við það þegar búið var að gefa einstaka ráðherrum heimild til að setja reglugerðir.

Ég trúi því og treysti að hæstv. iðnaðarráðherra og hv. iðnaðarnefnd fylgi því eftir að haft verði náið samráð við sveitarfélögin í landinu við reglugerðarsmíðina þannig að markmið laganna komi skýrt fram og sátt og samstaða náist um þá reglugerð. Ég treysti því að tekið verði á þeim athugasemdum sem fram hafa komið, meðal annars á því hvernig verkefni þeirra aðila sem eiga að úrskurða um málin skarast. Það eru kannski helstu áhyggjurnar sem ég hef af þessari lagasetningu að ekki sé nógu skýrt með hvaða hætti skipulagsvaldið er á hverjum tíma, hvort það er hjá sveitarfélögunum í landinu, sem er að sjálfsögðu sérstakt stjórnsýslustig, eða hvort einstakar stofnanir ríkisins fari með ákveðna hluti. Það er mjög mikilvægt að ekki fari á milli mála hvernig að því er staðið.

Ég reyndi að koma því að í andsvari við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson áðan, en ég staldra aðeins við það sem kemur fram í nefndaráliti hv. iðnaðarnefndar. Mig langar, með leyfi forseta, að fá að vitna í það sem þar kemur fram:

„Samkvæmt frumvarpinu fer umhverfisráðherra með yfirstjórn umhverfis- og vatnaverndar og annast framkvæmd tiltekinna greina frumvarpsins en að öðru leyti lúta lögin yfirstjórn iðnaðarráðherra. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að meginstjórnsýsla vatnamála verði á hendi Orkustofnunar. Eftirlit Orkustofnunar snýr í fyrsta lagi að leyfisskyldum aðgerðum, í öðru lagi að þeim aðgerðum sem skilyrði hafa verið sett fyrir og í þriðja lagi er eftirlit heimilt með öllum aðgerðum ef tilefni gefast. Eftir sem áður eru framkvæmdir í og við vötn háðar leyfum og eftir atvikum eftirliti samkvæmt til dæmis skipulagslögum, mannvirkjalögum og lögum um lax- og silungsveiði og þar með aðkomu viðkomandi stjórnvalda.“

Ég staldra sérstaklega við fyrstu málsgreinina, virðulegi forseti. Þar skarast verksvið tveggja ráðuneyta og það er ekki gott. Síðan er sagt að meginstjórnsýsla vatnamála verði á hendi Orkustofnunar; „meginstjórnsýsla“ er orð sem hægt er að toga og teygja, hvort það eru allir þeir hlutir sem fjalla um stjórnsýsluframkvæmdina eða hluti af henni. Í þriðja lagi er talað um heimild til eftirlits með öllum aðgerðum „ef tilefni gefast“, og þetta er einmitt það sem við þekkjum í svona ferlum. Einnig er talað um að framkvæmdir í og við vötn séu háðar leyfum og eftir atvikum tilteknu eftirliti, til dæmis samkvæmt skipulagslögum, mannvirkjalögum og lögum um lax- og silungsveiði, og þar með aðkomu viðkomandi stjórnvalda.

Mér finnst mikilvægt að hv. iðnaðarnefnd fari yfir frumvarpið á milli 2. og 3. umr. þar sem þegar hefur verið kallað eftir því að málið fari til nefndarinnar. Þó að flestir séu mjög ánægðir með að sátt hafi náðst um málið þá er gríðarlega mikilvægt að hv. iðnaðarnefnd skoði þetta sérstaklega vegna þess að í umsögnum um málið — til að mynda kemur það skýrt fram í umsögn frá Umhverfisstofnun — koma fram áhyggjur af stjórnsýsluframkvæmdinni. Í umsögn frá Umhverfisstofnun segir, með leyfi forseta:

„Þar sem skammur tími gafst til að fara yfir frumvarpið ásamt því að Umhverfisstofnun hefur ekki haft aðkomu að frumvarpinu á fyrri stigum gafst ekki tími til að leggjast í ítarlegan samanburð á frumvarpinu við aðra löggjöf.“

Ég hef einmitt áhyggjur af því að ekki sé samræmi á milli þessara laga og þeirra sem talin eru upp hér, skipulagslaga og mannvirkjalaga. Ég tel þetta mikilvægt og þykist vita að hv. iðnaðarnefnd fari mjög vel yfir þetta.

Virðulegi forseti. Mig langar að vitna í tölvupóst sem ég fékk frá sveitarstjórnarmanni sem hefur látið sig þessi mál varða. Hann hefur mikla reynslu af þessum málum og einmitt því sem snýr að lögum um framkvæmdir. Hann bendir á hættuna á því að valdmörk sveitarstjórna og Orkustofnunar verði óljós nái frumvarpið fram að ganga og verður ekki annað séð en að sú hætta sé enn til staðar. Einkum benti hann á að alla skírskotun til nýsettra skipulagslaga vantaði í frumvarpið og greinargerð með því. Sú breyting sem lögð er til í 1. gr., þar sem vísað er til annarra laga, leysir ekki þann vanda og er jafnvel frekar til þess fallin að skilin milli vatnalaga og annarra laga verði óljósari. Viðkomandi einstaklingur segir, með leyfi forseta:

„Dómstólum og úrskurðaraðilum kann þannig að verða mikill vandi á höndum að úrskurða hvaða lögum ber að fara eftir ef einstökum lögum ber ekki saman.“

Ég lít á þetta sem ákveðin varnaðarorð. Við þurfum að samræma þessa löggjöf þannig að það sé alveg skýrt hvernig hlutirnir eiga að gerast.

Ég leiði hugann óneitanlega að þeim gryfjum sem gætu verið á veginum fram undan. Nú bíða allir spenntir eftir því að hæstv. innanríkisráðherra kynni niðurstöðu sína í sambandi við Vestfjarðaveg 60. Öll þekkjum við þá raunasögu og þurfum kannski ekki að fara yfir hana í þessari umræðu. En þar gerðust ákveðnir hlutir sem ég óttast að gætu gerst ef ekki er vandað til þessarar lagasetningar, ef lögin eru ekki samræmd.

Í hæstaréttardómi í máli sem sneri að Teigsskógi var úrskurður þáverandi umhverfisráðherra ógiltur vegna þess að í honum var vísað til orðsins „umferðaröryggi“. Þegar hæstv. umhverfisráðherra felldi úrskurð um lagningu vegarins talaði hann um umferðaröryggi en samkvæmt náttúruverndarlögum er það ekki heimilt. Hæstiréttur ógilti þar með úrskurð umhverfisráðherra. Það sjá allir og skilja hve sorglegt það er að menn skuli hafa túlkað lögin á þann hátt að þetta eina orð, orðið „umferðaröryggi“, sem ekki mátti nota, hafi komið í veg fyrir láglendisveg á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ekki má skilja orð mín á þann veg að ég ætlist til að dómstólar dæmi öðruvísi en lögin kveða á um, alls ekki. Það er vissulega skylda dómstóla að dæma eins og lögin segja til um. En þetta eina orð varð til þess að sú vegagerð hefur verið í algeru uppnámi og óvissu í mörg ár. Þessi dómur féll fyrir tveimur árum. Það er þetta sem ég óttast og þess vegna er ég að rekja þetta hér.

Það er gríðarlega mikilvægt, þegar menn setja svona lög, þar sem verið er að fara í framkvæmdir, virkja vatnið og nýta vatnið, að það sé skýrt hver á að gefa út framkvæmdaleyfið, að ekki séu til að mynda óljós skil á milli Orkustofnunar og sveitarfélaganna. Það er gríðarlega mikilvægt. Þess vegna er ég að rifja upp þetta dapurlega dæmi, og öll þekkjum við afleiðingarnar af því. Það þarf ekki að ræða við marga íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum til að gera sér grein fyrir því hversu mikið áfall það var fyrir íbúa svæðisins að upplifa það að þessi veglagning er í uppnámi og þetta sé eina svæðið á landinu sem ekki er með sambærilegar samgöngur og önnur byggðarlög eða önnur svæði á landinu. Það hefur valdið því að þarna hefur mikil fólksfækkun orðið enda eru búsetuskilyrði ekki sambærileg við aðra staði fyrir einstaklinginn og fyrirtækin sem þarna eru rekin eru að sjálfsögðu ekki samkeppnisfær við fyrirtæki sem þau eru að keppa við. Öll aðföng til þessa svæðis eru mörgum sinnum dýrari en til annarra, flutningskostnaður, óvissar samgöngur gera það að verkum að búsetuskilyrðin á sunnanverðum Vestfjörðum eru allt önnur en í öðrum hlutum landsins. Ofan á það bætist óvissan sem hefur verið kringum Breiðafjarðarferjuna Baldur. Sem betur fer er búið að eyða henni um ákveðinn tíma en nú verður Baldur til að mynda í burtu, jafnvel í fimm, sex eða jafnvel sjö vikur, til að leysa Herjólf af meðan hann er í slipp erlendis. Það sjá það allir hversu mikið atriði það er fyrir þessa íbúa og þessa byggð að fá varanlegan veg.

Þess vegna er ég að rifja þetta dapurlega dæmi upp til að minna á hversu mikilvægt það er að þegar menn setja lög hér á Alþingi séu þau skýr þannig að menn geti ekki farið út í hártoganir á einstökum atriði eins og ég hef nefnt hér. Ekki mátti nefna umferðaröryggi í úrskurði hæstv. umhverfisráðherra á sínum tíma og hvaða heilvita manni dettur í hug í dag að það séu ekki rök fyrir að fara í vegagerð hvar sem er á landinu? Það er grunnstoð og helsta ástæða þess að farið er í vegagerð víðs vegar á landinu. En það mátti ekki nota það sem rök, þannig var það í lagasetningunni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við vöndum okkur og förum vel yfir þetta mál og ég treysti því og veit að hv. iðnaðarnefnd gerir það.

Ég vil í lok máls míns ítreka að ég er mjög feginn því að sátt náðist um þessi mál. Ég tel að hv. iðnaðarnefnd hafi skilað af sér góðu verki og ber að þakka forustu hennar, og sérstaklega kannski hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir framgönguna í þessu máli. Það er vel að verki staðið að leggja niður þessar deilur.

Mig langar að fara aðeins yfir atriði sem kristallast kannski í þessu máli, þ.e. hvað gerist þegar öfgarnar verða miklar, og þá skiptir engu máli í hvora átt þær eru, það hafa margir haft skoðanir á ýmsum hlutum. Til að mynda náðist, eftir 20 ára feril, samkomulag í því sveitarfélagi sem ég bý í, Snæfellsbæ, um að gera samning um útflutning á vatni. Það olli þá miklu fjaðrafoki hjá mörgum sem búa ekki í því sveitarfélagi þó svo allir íbúar sveitarfélagsins væru mjög sáttir við þá niðurstöðu. Með samningnum hafa tugir starfa verið skapaðir í sveitarfélagi þar sem hefur verið að fækka á undanförnum árum, þó að sú fækkun hafi staðið í stað á allra síðustu árum. Þarna höfðu margir mjög sterkar skoðanir á því að þarna væru sveitarstjórnirnar eða íbúarnir að selja frá sér vatnið vegna þess að leigusamningur vatnsins var til ákveðins tíma, 95 ára eða 99 ára eins og var þá í lögunum. Þessir samningar voru þó þannig að einungis var um að ræða 2% af vatnsauðlindum sveitarfélagsins, vatn sem var búið að renna til sjávar alveg frá því að landið byggðist og alla tíð. Þetta voru 2% af auðlindum sveitarfélagsins. Það var að mati margra skárra að láta vatnið renna til sjávar áfram frekar en að skapa tugi starfa í sveitarfélaginu og gríðarlega miklar tekjur sem mundi þá breyta búsetuskilyrðunum.

Það er gríðarlega mikilvægt þegar við ræðum þessi mál að við gerum það af yfirvegun en ekki með ofstopa. Ég vil fagna því, eins og ég sagði áðan, að við skulum hafa náð sátt í málinu. Ég ítreka óskir um að hv. iðnaðarnefnd fari vel og vandlega yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram í ræðum hv. þingmanna. Það getur verið hættulegt að gleyma sér í gleðinni og halda að af því að við höfum náð saman sé málið gott að öllu leyti. Það er gríðarlega mikilvægt að hv. iðnaðarnefnd fari yfir málið, skoði athugasemdir sem hafa komið fram í máli hv. þingmanna í þessari umræðu og fari vel og vandlega yfir þær. Huga þarf að samræmi við önnur lög svo að við lendum ekki í togstreitu um það hvernig beri að túlka lögin og hvernig eigi að framfylgja þeim. Það er líka mikilvægt, þegar farið verður í reglugerðarsetninguna, að unnið verði í nánu og góðu samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Það er gríðarlega mikilvægt atriði líka. Ég vænti þess að hv. iðnaðarnefnd fari, í framhaldsnefndaráliti sínu, yfir þær áhyggjur sem menn hafa rætt hér í dag. Ég bíð spenntur eftir því að hv. iðnaðarnefnd skili framhaldsnefndaráliti fyrir 3. umr.