139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[18:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér víðfrægt mál sem olli miklum deilum á Alþingi fyrir nokkrum árum. Svo vill til að sá sem hér stendur gegndi formennsku í iðnaðarnefnd árið 2004, að mig minnir, þegar frumvarp til nýrra vatnalaga kom til þingsins og átti að leysa eldri vatnalög, nr. 15/1923, af hólmi. Í því frumvarpi átti fyrst og fremst að skýra réttarstöðu landeigenda, þ.e. vatnsréttindi og fleira. Í raun og veru var það staðfest, og var þá vitnað í margar ræður og rit okkar færustu prófessora í lögum, m.a. Ólafs Jóhannessonar, að lögin frá 1923 kvæðu á um eignarrétt landeigenda á þessari auðlind.

Hins vegar komu fram mjög skiptar skoðanir um frumvarpið og deilurnar voru mjög harðar, svo harðar að málið var eitt það lengsta sem rætt var á því kjörtímabili, að mig minnir, fyrir utan fjölmiðlalögin, og miklar og langar ræður settar á um það. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það að menn vilji ræða málefni sem snertir að sjálfsögðu auðlindir hér á landi, en við sem vildum ná því frumvarpi í gegn stóðum í þeirri meiningu að í raun væri einungis um lagfæringu á lögunum frá 1923 að ræða og lögin færð til nútímahorfs en ekki væri um neina efnisbreytingu að ræða. Eins og ég nefndi áðan höfðu fremstu lagasérfræðingar landsins í gegnum áratugina kveðið á um að andi frumvarpsins frá 1923 væri sá að eignarréttur landeigenda á landi væri tryggður og frumvarpið var meðal annars byggt á því.

Eins og gefur að skilja með svo mikilvægt mál var það rætt lengi, reyndar svo sólarhringum skipti. Það varð að samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu að málið yrði ekki að lögum heldur sett í sáttaferli sem þáverandi ríkisstjórn kom á. Málið var sett í það ferli að fulltrúar allra flokka fengu að koma að því að endurskoða frumvarpið og það frumvarp sem við ræðum hér er í raun og veru afrakstur þeirrar vinnu, þ.e. niðurstaðan af þverfaglegu samstarfi. Nú er sagt að á þeim tíma hafi verið mikill lýðræðishalli en þó ræðum við núna frumvarp til laga sem unnið var að árið 2006, eða þá var vinnunni skilað. Niðurstaðan er nú orðin að veruleika og málið komið úr iðnaðarnefnd með stuðningi fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi.

Það skiptir verulega miklu máli í stórum málum að við reynum að mæta sem flestum sjónarmiðum, ræða saman og finna sameiginlega lausn. (MÁ: Það var gert árið 2006.) Og það var gert árið 2006, segir hv. þingmaður enda veit hann að málið var sett í sáttaferli þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka komu að (MÁ: Geturðu lýst því aðeins nánar fyrir okkur hvernig það var?) Nú vill hv. þingmaður að ég fari í sögulegar skýringar á því.

(Forseti (ÁI): Forseti biður menn um að vera ekki á tveggja manna tali í þingsal og biður hv. þingmenn að leyfa ræðumanni að njóta þess að hafa einn orðið í salnum.)

Frú forseti. Það er nú svo ánægjulegt að geta átt orðastað við stjórnarliða í umræðu sem þessari og öðrum umræðum þessa dagana, að mér er sannur heiður að því að hv. þm. Mörður Árnason sé kominn í salinn. Hann hefur náttúrlega verið mikill áhugamaður um þetta mál rétt eins og þingmenn margra annarra flokka, en hvað um það.

Við höfum staðið frammi fyrir ýmsum álitamálum og nú hafa menn komið sér saman um frumvarp til laga sem hefur verið afgreitt úr iðnaðarnefnd þingsins og mun greinilega njóta víðtæks stuðnings þingmanna úr vonandi öllum flokkum, örugglega flestöllum flokkum á þingi. Þar af leiðandi verður þetta stóra mál að lögum frá Alþingi á þessu hausti og er það vel. Þetta segir okkur kannski og sýnir hvernig Alþingi á að vinna. Málið var sett í sáttaferli eftir nokkrar deilur eins og hv. þm. Mörður Árnason nefnir. Vissulega áttu sér stað mjög harðar umræður í aðdraganda þess en menn náðu þó þeirri niðurstöðu að setjast yfir málið, þvert á flokka, og niðurstaðan er komin hér: víðtæk sátt um mjög mikilvægan málaflokk. Ég tel að við getum lært af reynslunni þegar unnin er að stórmálum sem þessum, að kalla alla aðila að borðinu, fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem hitta alla hagsmunaaðila og fara yfir viðkomandi mál, og afurðin geti verið á viðlíka formi og það mál sem við ræðum hér.

Það er rétt sem líka hefur komið fram að í raun og veru er með þessu frumvarpi ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á því frumvarpi sem kynnt var á Alþingi fyrir nokkrum árum. Menn höfðu mismunandi sjónarmið og túlkuðu frumvarpið sem við ræddum þá á ólíkan hátt en ég tel að hér sé ekki verið að breyta eðli þess í grundvallaratriðum. Í raun og veru er verið að ræða um sama mál í grundvallaratriðum þó að allt önnur hugtök séu nefnd, ég skal játa það. Kannski trufluðu þau hugtök sem þá voru nefnd í umræðunni málið að verulegu leyti en ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu sem hefur orðið.

Þegar við ræddum fyrra frumvarpið á sínum tíma varð mikil umræða um almannarétt, m.a. frjálsa för um lönd og fleira í þeim efnum. Ég hef verið talsmaður þess að styrkja almannaréttinn þegar kemur að umgengni við náttúru landsins. En ég hef líka verið talsmaður þess að virða réttindi landeigenda. Við erum þá oftast að tala um bændur í því samhengi vegna þess að margir hafa fjárfest í bújörðum á undangengnum árum þar sem gert er ráð fyrir að þessar auðlindir tilheyri viðkomandi jarðeignum, samkvæmt lögum og túlkunum sem voru í gildi samkvæmt vatnalögum frá árinu 1923.

Margt gekk á á þessum árum og það var í rauninni mjög erfitt að verja þá framvindu sem átti sér stað á sama tíma, hvað landeigendur varðaði, í hinu svokallaða þjóðlendumáli. Ríkið sótti mjög hart fram, fór hringinn í kringum landið, eða hefur hér um bil lokað þeim hring, og fór fram með mjög strangar kröfur gegn landeigendum um að þeir ættu að sanna eignarrétt sinn á eignarlöndum sínum. Ef þeir gætu það ekki yrðu þau lönd að þjóðlendum. Mér fannst ósanngjarnt, af hálfu ríkisins, að það voru viðkomandi jarðeigendur sem þurftu að sanna að landið væri þeirra. Það var ekki ríkisins, þess aðila sem sótti málið, að sanna að eignarrétturinn væri ríkisins. Þessu var snúið við að mínu viti.

Heilmiklir fjármunir hafa farið í þennan leiðangur hringinn í kringum landið gagnvart landeigendum, aðallega bændum, og mér hefur fundist þetta keyra úr hófi fram. Þetta hefur kostað heilmikla fjármuni fyrir hundruð fjölskyldna á tímabilinu. Færð hafa verið rök fyrir því að ríkið hafi átt að koma til móts við kostnað landeigenda til að reka þessi mál en ég held að enginn hafi í raun og veru reiknað fyllilega út hversu miklum tíma fólk vítt og breitt um landið hefur eytt á síðustu rúmum tíu árum í að finna skjöl, fara á Þjóðskjalasafnið, leita í gömlum handritum eða gömlum þinglýsingarsamningum o.s.frv. að einhverri viðurkenningu eða sönnun um að það hafi átt tilkall til viðkomandi lands. Gríðarlegur tími hefur farið í þetta hjá hundruðum einstaklinga. Að við tölum nú ekki um lögfræðikostnaðinn sem ríkið hefur greitt til að reka öll þessi mál. Talan sem ég heyrði fyrir þremur eða fjórum árum var að kostnaðurinn væri kominn í á annað þúsund milljónir króna. Það eru gríðarlegir fjármunir og mikil uppgrip fyrir lögmannsstéttina í landinu en ófáir lögfræðingar komu að þessu á sínum tíma.

Af hverju nefni ég þetta í þessu samhengi? Það er vegna þess að fram komu hugmyndir úr röðum vinstri manna um að þjóðnýta ætti vatnsauðlindir á bújörðum. Þessu var ekki hent fram í einhverju gamni heldur í fullri alvöru þrátt fyrir að fyrir lægi að einstaklingar hefðu fjárfest í jörðum þar sem réttindi fylgdu. Við náðum sem betur fer að tryggja réttindi landeigenda í því máli og það endurspeglast í frumvarpinu sem við ræðum hér en við náðum jafnframt líka að standa vörð um almannarétt, réttindi almennings varðandi aðgengi að landi.

Það er því gott að við getum sameinast um þetta mál í skugga annarra mála sem við höfum deilt mikið um og munum deila um, svo sem um varanleg gjaldeyrishöft fram til ársloka ársins 2015. Það mál er því miður í algerum hnút og hefur ekki verið unnið eins og þetta mál hér. Það hefur verið unnið þannig að aðallega hafa sérfræðingar ríkisstjórnarinnar og flokksfélagar innan þeirra raða komið sér saman um að móta stefnu um gjaldeyrishöft til nokkurra ára án þess að hleypa aðilum úr atvinnulífinu og hvað þá stjórnarandstöðunni að því borði.

Nú er svo komið að við í hv. efnahags- og skattanefnd höfum fundað í allan dag, byrjuðum í morgun, um það mikla deilumál með mörgum sérfræðingum úr íslensku samfélagi til að reyna að bæta frumvarpið. Í tvo daga höfðum við rætt það og óskað eftir hléi á umræðunni til að reyna að betrumbæta frumvarpið, kannski sérstaklega í ljósi þess að legið hafði fyrir skriflega á þskj. 1750 sem dreift var í júní sl. að fara ætti fram ítarleg hagfræðileg og lögfræðileg greining á áhrifum gjaldeyrishaftafrumvarpsins. Við þurftum að ræða það, frú forseti, í tvo daga til að gera hlé á þeirri umræðu en buðumst jafnframt til, og það er fáheyrt í sögu þingsins, að funda í efnahags- og skattanefnd þrátt fyrir að þingfundir stæðu yfir og það höfum við gert. Ég hef reyndar ekki komist að í sumum þeim umræðum, bæði vegna vinnu innan nefndarinnar og utan á milli funda, en það verður að hafa það vegna þess að þetta er grundvallarmál.

Við höfum lagt til vinnulag eins og í því máli hér sem við höfum náð algerri sátt um, frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum frá árinu 1923, og allir þingflokkar komu að. Við höfum lagt fram tillögu í því stóra máli sem snertir heimilin og fyrirtækin í landinu og umhverfi íslensks atvinnulífs gríðarlega miklu máli, og í raun og veru allt umhverfi hér á landi fram til ársloka 2015, sem snýst um hvort við viljum virkilega setja það á blað að viðhalda gjaldeyrishöftum. Við höfum boðið sama vinnulag og í því máli sem við ræðum hér, þ.e. að fulltrúar allra þingflokka geti komið að því að endurskoða peningastefnuna á komandi hausti og aflétt gjaldeyrishöftunum í góðri samvinnu við alla helstu hagsmunaaðila á skjótum tíma þannig að við þurfum ekki að búa við gjaldeyrishöft næstu rúmu fjögur árin.

Frú forseti. Ég er því miður ekkert allt of bjartsýnn á að á ósk okkar verði hlustað. Við höfum sýnt mikinn vilja innan efnahags- og skattanefndar til að lenda þessu máli sem skiptir gríðarlega miklu fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Ég nefni þetta í tengslum við vatnalagafrumvarpið og vinnubrögðin við það og ber saman við önnur mál sem hafa sprungið í andlitið á okkur í störfum okkar á undangengnum árum. Þetta góða mál sem við ræðum hér staðfestir að með breyttum vinnubrögðum getum við náð betri árangri saman, í samvinnu allra flokka. Við þekkjum söguna úr Icesave-málinu. Ekki var samvinnunni fyrir að fara þar og nú sýnist mér því miður að verið sé að fara að gera önnur örlagarík mistök sem snerta viðvarandi gjaldeyrishöft.

Á fundi efnahags- og skattanefndar áðan komu fram áhyggjur virtra fræðimanna af því að ef stjórnarmeirihlutinn nær sínu fram — og ég vek athygli á því að meiri hlutinn eru 32 þingmenn gegn 31 — þá séum við mögulega að fresta eða festa í sessi gjaldeyrishöft til áratuga. Vill einhver hverfa aftur um áratugaskeið í formi gjaldeyrishafta hér á landi þegar menn þurftu jafnvel að hafa réttu samböndin, stundum í gegnum stjórnmálaflokka, til að geta keypt sér bíl? Við erum föst í þessu því miður.

Ég beini því þeim eindregnu tilmælum til frú forseta, sem er 1. forseti og stýrir þessum fundi og ég veit að hún hlýðir á mál mitt, að hún hlutist til um það að menn breyti vinnulaginu á Alþingi í stórum málum líkt og gert var í frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum sem verður samþykkt á þinginu, að ég tel í mjög víðtækri sátt. En það eru önnur mál undir á lokadögum þingsins á þessu hausti. Það er tímabært að við förum að læra af biturri reynslu. Það er kallað eftir því að menn vinni meira saman í þessum sal og almennt í stjórnmálum svo við náum betri niðurstöðu.

Það hefur einfaldlega komið fram, eins og í málinu um gjaldeyrishöftin, að við erum meira að segja að taka ákvarðanir á grundvelli lítilla upplýsinga. Það vantar mjög mikilvægar upplýsingar til að geta staðið að þeirri ákvarðanatöku með öruggum hætti. Ef maður hefur ekki ítarlegar upplýsingar til að taka ákvarðanir þá er meiri hætta á því en ella að maður geri mistök. Það getur verið að gerast nú á þessum síðustu dögum. Ég ítreka enn og aftur til frú forseta beiðni mína um að hún setjist niður með forustumönnum þingflokka á Alþingi og óski eftir því að vinnulaginu verði breytt.

Í skýrslu þingmannanefndar Alþingis um rannsóknarskýrsluna er þess farið á leit að við breytum vinnubrögðunum. Við ræðum hér mál sem þarf ekki mikið að rífast um vegna þess að allir hafa haft aðkomu að ákvarðanatöku á öllum stigum málsins. Þess vegna verður það samþykkt með miklum meiri hluta eða með öllum greiddum atkvæðum í dag. Þannig eigum við að vinna og þess vegna mun ég styðja frumvarpið (Forseti hringir.) sem við ræðum hér um breytingu á vatnalögum.