139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[18:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, það eru um fimm ár síðan við stóðum mörg hver hér í þessari pontu og ræddum hið fyrra frumvarp. En vatnalögin frá 1923 eru væntanlega orðin 88 ára og hafa að mörgu leyti enst vel þótt að sjálfsögðu þegar löggjöf er að verða níræð þurfi að færa eitthvað í henni til nútímalegra horfs. Það var ætlunin á árinu 2006.

Hafi menn ákveðnar skoðanir á því hvernig þeir sem eru í minni hluta í dag beita orðræðu sinni og jafnvel krafti raddar sinnar í ræðustól er það hjóm eitt miðað við málflutninginn á árinu 2006 í þinginu. Þá stóðu hér í stafni þáverandi hv. þingmenn Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson og fleiri mætti nefna og töluðu sig máttlausa um þetta mál. En nú, eins og hv. þingmaður bendir á og ég og fleiri taka undir, erum við að ræða efnislega um sama málið. Það er verið að innsigla þá hugsun sem talað var fyrir á árinu 2006.

Hins vegar var efnt til dæmalauss áróðurs í samfélaginu gegn frumvarpinu og margt sem þar var sagt var einfaldlega ekki rétt heldur skrumskælt og mörgum hagsmunaöflum úti í samfélaginu var beitt, m.a. stéttarfélögum, gegn því sem leiddi til þess að umræðan fór á algjörar villigötur. Sem betur fer höfðu menn þá vit á því að setja málið í þann farveg að sem víðtækust sátt næðist um það (Forseti hringir.) og það frumvarp liggur nú fyrir.