139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[18:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Verður ekki annað sagt, frú forseti, en að þau lög hafi heldur betur enst.

Nú er framsögumaður nefndarálits með frumvarpinu sem við ræðum hér er ekki staddur í salnum en ég ætlaði að spyrja hann nokkurra spurninga. Ég held nefnilega að þó að þetta sé samkomulagsmál og allir séu sáttir við frumvarpið þurfi að skerpa á vissum hlutum. Spurningin er hvort hann er í húsi og geti upplýst mig, eða þá aðrir nefndarmenn, ég ætla nú að vera sveigjanlegur í þessu, ég vil athuga hvað hafi verið rætt í nefndinni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að hv. þm. Kristján L. Möller er ekki í húsinu. Vill hv. þingmaður að það verði kallað eftir honum eða einhverjum öðrum í nefndinni?)

Sennilega nær hann ekki ræðu minni …

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun þá kalla eftir öðrum nefndarmönnum til að vera viðstaddir ræðu hv. þingmanns.)

Já, ég þakka forseta fyrir.

Það fyrsta sem maður rekur augun í, frú forseti, eru skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem ganga eiginlega þvert á skilning minn á íslensku. Rek ég þá fyrst augun í hugtakið „almenning“, en það er skýrt sem „sá hluti vatns sem liggur fyrir utan netlög landareigna“.

Í mínum huga er almenningur líka þurrt land þar sem bændur geta beitt sameiginlega, og var einmitt mikið í umræðu varðandi þjóðlendurnar. Mér finnst mjög slæmt ef menn fara að skilgreina í einum lögum eitthvert hugtak sem vatn eða yfirborð vatns þegar það er notað í miklu víðari merkingu annars staðar. Ég veit ekki hvernig maður á að taka þessu þegar búið er að segja að almenningur sé hluti vatns og svo segir einhver bóndi: Ég ætla að beita kindunum mínum á almenning. Ég er ekki ánægður með þessa breytingu, í rauninni er verið að breyta tungumálinu.

Svo er hérna eitthvað sem heitir bakki sem er skýrt sem „fast takmark á farvegi straumvatns“, þar á meðal klettar. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt talað um kletta sem bakka vatns, ár eða lækjar. Þarna er þá komin ný skilgreining. Vel má vera að minn skilningur á orðinu sé ekki almennur skilningur á því en fyrir mér er klettur sem skagar út í vatn ekki bakki vatnsins. Þetta truflar mig líka og ég vildi gjarnan spyrja einhvern í nefndinni hvort þetta hafi verið rætt þar.

Síðan er hérna skilgreining á farvegi sem er „vatnsleg sem vatnsfall rennur eftir, hvort heldur af manna völdum eða náttúru.“

Þetta skiptir verulegu máli vegna þess að það sem er af manna völdum gæti t.d. verið rör, sérstaklega aðveiturör fyrir vatnsaflsvirkjanir því að hér stendur að vatnsfall sé „rennandi vatn í afmörkuðum farvegi, þó að breytilegur sé eftir tíma og stað, sem rennur undan þyngdaraflinu niður á við.“

Rör sem vatn rennur um eftir þrýstingi frá dælu inn í íbúð, það er þá ekki vatnsleg eða farvegur, en vatn sem rennur niður eftir pípu, t.d. í Kárahnjúkavirkjun, það er þá vatnsleg, allur sá farvegur. Þetta vildi ég vita hvort menn hefðu rætt vegna þess að það getur skipt töluverðu máli hvort vatninu hafi verið dælt eða hvort það rennur undan þyngdaraflinu, eins og stendur hér, frú forseti. Samkvæmt þessu geta þá allar pípur sem vatni er ekki dælt um heldur rennur það undan þyngdaraflinu, verið farvegur. Menn þurfa að hafa það á hreinu að farvegur getur þá verið rör, alveg eins og árfarvegur. Þarna er aftur verið að breyta tungumálinu því að í mínum huga hefur rör alltaf verið rör, vatnsrör, en nú er það sem sagt orðið farvegur ef vatnið rennur eftir eigin þrýstingi niður á við undan þyngdaraflinu.

Svo kemur hér mjög alvarleg villa eða breyting á tungumálinu sem er hugtakið iðja sem er „iðnaður, annar en handiðn“.

Ég hef fréttir af því að þetta hafi verið rætt í nefndinni en því var ekki breytt. Mér finnst það mjög miður vegna þess að ég hef alltaf talað um áliðnað en nú þarf ég að fara að tala um áliðju, og skipasmíðaiðju en ekki skipasmíðaiðnað. Ég kann ekki við það þegar löggjafinn fer að breyta íslenskri tungu á þennan veg og vil að menn skoði þetta í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Það var ekki fleira sem ég sá í orðskýringunum. Orðskýringar geta nefnilega verið hættulegar þegar þær breyta tungumálinu, af því að þetta eru lög.

En það sem mig vantar algjörlega að vita frá hv. nefnd er: Fellur sjórinn undir þetta?

Það stendur nefnilega í frumvarpinu: „Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar.“

Ef maður lítur á alla jörðina sem kúlu er sjórinn að sjálfsögðu vatn á yfirborði jarðar. En ef maður lítur bara á Ísland er sjórinn ekki inni í því. Ég hef grun um að með kyrrstæðu vatni sé hér ekki átt við sjóinn. Til eru lón á Íslandi sem eru sölt. Ég nefni Jökulsárlón, það er salt að einhverju leyti, inn í það rennur stundum sjór. Svo eru til önnur lón sem eru líka sölt og þar gætir sjávarfalla. Þau mundu væntanlega vera vatn og falla undir vatnalögin þó að um sé að ræða saltvatn. Ég mundi gjarnan vilja að menn færu í gegnum þessi hugtök og afmarki þau betur.

Hér hefur nokkuð borið á umræðu um þjóðlendur. Ég minnist þess vel þegar þjóðlendurnar voru settar á og ríkið sló eign sinni á um 40% af yfirborði landsins, því þjóðlendurnar eru í eigu ríkisins, að það var mesta landnám síðan á landsnámsöld. En um leið var landsvæði einkaréttar og ríkisins afmarkað, sem er mjög jákvætt því að ég vil endilega hafa eignarréttinn klipptan og skorinn og það sé alveg á hreinu hver á hvað. Þjóðlendurnar voru því í rauninni afmörkun á eignarrétti ríkisins gagnvart borgurunum. Um þetta hafa verið um miklar deilur og menn hafa gagnrýnt það að ríkið hafi gert ýtrustu kröfur en mér fannst alltaf að auðvitað yrði ríkið, fyrir hönd skattgreiðenda, að gera ýtrustu kröfur svo það yrði ekki vænt um það seinna meir að hafa gefið land eða réttindi. Eflaust eru ekki allir sammála þessu. En nú held ég að það sé komin þokkaleg sátt um þetta allt og það liggi nokkurn veginn fyrir hver á hvað þó að enn sé heilmikið af landi í óskiptri eign, sem ekki er gott.

Þar sem ríkið á með þjóðlendunum 40% af öllu landi á líka ríkið 40% af öllu vatni — eða ég veit ekki nákvæmlega hvað ríkið á mikið af þessu vatni sem við erum að ræða um. Það væri gaman að fá upplýsingar um það frá nefndinni hvort það hafi verið rætt. Nú er það þekkt, að minnsta kosti erlendis frá, að 90% af vatni sem rennur til sjávar er talið vera grunnvatn, þ.e. ekki yfirborðsvatn. Á yfirborðinu rennur bara 10% til sjávar. Þetta hef ég séð einhvers staðar í fræðibók. Við erum því að tala um miklu, miklu meira en bara árnar af því að grunnvatn fellur undir lögin líka. Þaðan ná menn í drykkjarvatn yfirleitt.

Í þessu frumvarpi mætum við þróun tækninnar. Fyrir nokkrum áratugum var orka sem bundin var í vatni óþekkt fyrirbæri. Jú, reyndar var til laug uppi í Reykholti, Snorralaug, þar sem notaður var heitur hver en að öðru leyti var orkan sem bundin er í vatni ekki nýtt. Það var að sjálfsögðu vegna skorts á tækni og þekkingu. Menn þekktu ekki t.d. tækni varðandi röraleiðingu á vatni og ekki tæknina við að nota fallorkuna í vatni.

Núna er þetta þekkt og ég spyr mig: Vatnsorkuna hafa menn þekkt í 120 ár, kannski 130 ár. Þekking á hitaorkunni er miklu yngri, hún hefur kannski verið þekkt í 30–40 ár. Þar hafa Íslendingar staðið mjög framarlega í að leysa þau miklu vandamál sem stafa af tæringu og erfiðri efnasamsetningu gufunnar. En þegar maður hugsar um að þekkingin sé bara 30 ára í öðru tilfellinu og 120 ára í hinu tilfellinu, veltir maður fyrir sér: Hvað fleira getur komið upp í sambandi við vatn og orku? Það á eflaust eftir að koma eitthvað meira. Við þekkjum náttúrlega hitaveitur og alla þá nýtingu á orkunni í vatninu.

Það sem ég ætlaði að koma inn á að lokum er hvaða máli vatn skiptir í alþjóðlegu samhengi. Ef menn fara í gegnum mannkynssöguna hygg ég að velflest stríð, eða stór hluti af stríðum í heiminum í mannkynssögunni, hafi verið út af vatni vegna þess að í flestum löndum heims er skortur á vatni. Við búum svo vel hérna að hér þarf eiginlega enginn að velta fyrir sér að spara vatn. það er svoleiðis yfirgnótt af vatni að við kunnum ekki að fara vel með vatn, því miður. Erlendis er mikill hörgull á vatni. Ég vil bara benda á hungursneyðina í Sómalíu, hún er eiginlega eingöngu vegna skorts á vatni, þar vantar bæði grunnvatn, yfirborðsvatn og rigningarvatn, allar þessar þrjár tegundir af vatni.

Maður veltir fyrir sér: Hvernig verður þróunin í verðmæti vatns? Ég hef grun um að vatnið muni á tvennan hátt verða ein mesta auðlind Íslands í framtíðinni. Í fyrsta lagi er það orkan í vatninu, bæði gufuorkan og hitaorkan og fallorkan, í hverunum og fossunum. Það mun verða sú orka sem við munum hagnast mest á og skapar eiginlega mjög bjarta framtíðarsýn fyrir Ísland því að þessi orka er hrein. Hún mengar ekki og veldur ekki koldíoxíðlosun eins og ég hef nefnt hérna nokkrum sinnum. Ef menn taka upp verslun með koldíoxíðlosunarheimildir þá mun orka um allan heim hækka í verði, íslenska orkan líka, en hér þarf ekki að greiða fyrir losunarheimildir og skuldirnar sem við höfum tekið til þess að virkja hana, þær hækka ekki. Það verður því nettó eignarmyndun hjá Íslendingum upp á mjög stórar upphæðir að mínu mati, fyrir utan það að við eigum eftir að virkja heilmikið af vatni. Þetta er sú bjarta framtíð sem ég spái Íslendingum næstu 20–30 ár og gæti búið hér til auðlind sem svarar til olíuauðs Norðmanna ef vel er á spilunum haldið.

Í öðru lagi er það náttúrlega neysluvatnið. Mannkyninu fjölgar stöðugt og það gerir meiri kröfur til betra vatns. Því miður býr stór hluti mannkyns, ekki veit ég hvað stór hluti en sennilega um fjórðungur, við óhreint og óheilnæmt drykkjarvatn. Á meðan höfum við Íslendingar eiginlega ómældar birgðir af hreinu vatni. Það er spurning hversu mikils virði það er til framtíðar þegar flutningatækni, pökkunar- og geymslutækni og slíku fleygir fram. Þetta er nefnilega allt saman spurningin um eitt, frú forseti, sem ég hef alltaf lagt áherslu á: Það er engin auðlind án mannauðs. Vatnið var einskis virði fyrir kotbændur Íslendinga í aldir. Samt var hver í gilinu, samt var foss fyrir ofan í gilinu. En menn kunnu ekki að nota það, verkþekkingu, tækni og þekkingu vantaði. Þess vegna er menntaður mannauður auðlind þjóðarinnar, það er auðlindin. Í „forbífarten“ ætla ég að geta þess að ég óttast það mest að með núverandi efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar séum við að missa þessa auðlind úr landi, því miður, sem er mesta auðlind Íslands.

Ég býst við því að til frambúðar verði vatnið sem orkugjafi og sem neysluvatn mesta auðlind landsins. Ég veit ekki hvað neysluvatnið verður mikil auðlind. Ef menn finna einfaldar aðferðir til þess að eima vatn úr sjó — og aftur komum við að þekkingunni — mun neysluvatnið kannski ekki verða mjög mikil auðlind. En þangað til er íslenska vatnið greinilega mikil auðlind. Orkan í fallvötnunum verður ekki frá okkur tekin og hún mun væntanlega verða sú auðlind sem landið mun geta horft til til framtíðar. Mér finnst að menn eigi að horfa miklu bjartari augum til framtíðar en lenska er um þessar stundir.