139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst í lok ræðu framsögumanns verið að reyna að slá á tilfinningalega strengi, að þingmenn ættu allir að starfa saman að þeim leiðum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Stjórnmálaflokkar eru til vegna þess að okkur greinir á um leiðir og okkur greinir á um leiðir í þessu frumvarpi, það get ég sagt sem talsmaður Framsóknarflokksins.

Varðandi það sem hefur oft gerst þegar nefndarálit minni hluta koma fram hér — eftir að ég tók sæti hafa komið fram breytingartillögur frá meiri hlutanum og formaður allsherjarnefndar kynnti til sögunnar þó nokkrar í framsöguræðu sinni. Það sem ég undrast fyrst og fremst, vegna þeirrar umræðu sem fór hér fram í andsvari, er að það liggur fyrir breytingartillaga frá meiri hluta allsherjarnefndar þar sem ákvæðið um að ráðherrar skuli ekki vera fleiri en tíu í það að þeir séu ótölugreindir, getur verið jafnvel frá einum og upp í 15 ef svo ber undir — hvers vegna er komin fram breytingartillaga um að binda þetta ekki við einn tug eða minna?