139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að leggjast í einhverjar greiningar á sálarástandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ég færi einfaldlega þau rök sem fylgja þessu máli, þau eru margvísleg og snúa að mörgum öðrum þáttum en einum ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Það hefur ekkert komið í veg fyrir það, fram að þessum tímapunkti, að til dæmis hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem hefur mikinn áhuga á því að koma núverandi ríkisstjórn frá, flytji vantrauststillögu á hana og kanni hug Samfylkingarinnar til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég held að það hafi reyndar nýlega verið gert og kom í ljós að þingmenn Samfylkingarinnar staðfestu þar traust sitt á honum, staðfestu að þeir treysta honum eins og afganginum af ríkisstjórninni til að framfylgja þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað og þeim ályktunum sem Alþingi hefur samþykkt.