139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég er mikill áhugamaður um það að koma ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá og ég er ekki einn um það. Þessi ágæta ríkisstjórn nýtur ekki mikils stuðnings meðal þjóðarinnar miðað við það sem skoðanakannanir segja.

Ég veit ekki hversu mikið traust þingmenn Samfylkingarinnar bera til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ég spurði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hér í gær, úr ræðustól, hvort hann treysti og styddi hæstv. ráðherra. Hv. þingmaður treysti sér ekki til að svara þeirri spurningu. En það sætir auðvitað miklum tíðindum þegar mál er lagt fram af ríkisstjórn að einn tiltekinn ráðherra í þeirri sömu ríkisstjórn lýsi yfir andstöðu við það mál. Og það tengist auðvitað þeim áformum sem búa að baki. Ég tek undir það að það eru fjölmörg önnur rök á bak við þetta frumvarp (Forseti hringir.) en það skal enginn velkjast í vafa um að það snýst um það (Forseti hringir.) meðal annars að koma hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr þessari ríkisstjórn.