139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er lagt fram af forsætisráðherra, það þarf enginn að velkjast í vafa um það en það hefur náttúrlega tekið meiri háttar breytingum í meðförum þingsins. Það er að mínu mati blessunarlega svo að þingið hefur í mörgum tilfellum tekið að sér að fara mjög vandlega yfir frumvörp sem koma frá framkvæmdarvaldinu. Ég held, án þess að ég hafi mikla þingreynslu, að það hafi stóraukið hlutverk sitt í því að gera breytingar og koma að stefnumótun sem auðvitað á að vera hlutverk þingsins. Ég veit að við hv. þingmaður og andmælandi, Pétur H. Blöndal, deilum þeirri skoðun að það væri óskandi að í auknum mæli færi fram stefnumótun hér á vettvangi þingsins.

En þessu frumvarpi er ekki verið að veita óbreyttu í gegnum þingið, það er verið að gera miklar breytingar á því og miklar lagfæringar að mínu mati.