139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að menn ættu að fara miklu meira út í valdmörk milli Alþingis og framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, áður en þeir fara út í svona breytingar, til dæmis að Alþingi semji almennt þau lög sem hér eru samþykkt, enn fremur að tekið sé á því að ekki sé verið að semja um lagasetningu í kjarasamningum.

Það er ágæt tillaga hérna um íslensku á frumvörpum. Þá væri kannski ágætt að kíkja á upphaf 4. gr. sem ég get bara ekki skilið:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar …“. Ég skil þetta þannig, með mínum skilningi, að þetta heyri undir — af hverju er það ekki bara sagt, að stjórnarmálefni heyri undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar? Vantar mig kannski betri þekkingu á íslensku?