139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem fram koma hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að breytingin sem felst í 2. gr. frumvarpsins getur ekki annað en orðið til þess að veikja löggjafann, löggjafarvald Alþingis, og efla á móti framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnina og embætti forsætisráðherra. Það er augljóst. Þegar ákvörðunarvald í tilteknum mikilvægum málum er fært frá þingi til ríkisstjórnar veikist auðvitað þingið og ríkisstjórnin styrkist. Þetta er alveg klárt.

Síðan geta menn velt því fyrir sér, eins og hv. þingmaður gerir, hvort það sé sá lærdómur sem menn vilja draga af hruninu og skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndar sem hér hefur verið vísað til. Ég finn þessari breytingu engan stað í þeim skýrslum.