139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og yfirferð á þessu máli. Að einhverju leyti er í þessu frumvarpi verið að blanda saman ábendingum sem hafa komið fram í skýrslum í kjölfar hrunsins og svo í þeirri títtnefndu skýrslu sem hefur verið nefnd um samhenta stjórnsýslu.

Það sem vekur meðal annars athygli í þessu, sem er nú ýmislegt, er viljinn til að auka vald forsætisráðherra. Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er hvort hægt sé að rökstyðja það að auka valdheimildir eins ráðherra til að stýra og stjórna ríkisstjórn eða ráðuneyti á kostnað frelsis og sjálfstæðis hinna ráðuneytanna, (Forseti hringir.) ef ég skil þetta rétt, geti talist eðlilegt framhald af því sem hér gekk á 2008.