139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að þokkaleg samstaða sé æskileg, (MÁ: Sammála …) bærileg samstaða, (Gripið fram í.) um ákveðna grundvallarþætti varðandi skipan löggjafar um Stjórnarráð Íslands þannig að ný ríkisstjórn, nýr þingmeirihluti telji sig ekki þurfa að fara í einhverjar kollsteypur í hvert skipti sem kosningar eiga sér stað eða í hvert skipti sem ríkisstjórnarbreytingar verða. Ég held að það sé æskilegra að hafa svona þokkalega samfellu í því. Með því er ég ekki að segja að engu megi breyta. Aðstæður geta breyst, það getur verið nauðsynlegt að leggja niður ráðuneyti, stofna ný ráðuneyti, sameina ráðuneyti o.s.frv. Það getur allt saman verið málefnalegt og nauðsynlegt. Það er ekki svo að við höfum nú eða fyrir tveimur árum eða fyrir fjórum árum fundið endanlega lausn á þessum málum. Það sem ég legg áherslu á er hins vegar það að ákvörðunarvaldið fari eftir (Forseti hringir.) þeim reglum sem gilda hér á þingi, lúti lögmálum þingsins en ekki ríkisstjórnar.