139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að endurtaka það sem ég sagði fyrr í þessari umræðu: Þegar formleg völd eru færð frá einni stofnun til annarrar er vandséð að sú stofnun sem valdið er fært frá styrkist. Við getum deilt um það hvenær völd eru eingöngu formleg og hvenær þau eru raunveruleg vegna einhverra pólitískra aðstæðna, en ég ætla hvorki að deila um nútíð né fortíð í þeim efnum við hv. þingmann að svo stöddu. Ég get hins vegar ekki séð annað en að með þessu móti sé formlegt vald fært frá einni stofnun til annarrar og bendi á að önnur stofnunin býr við allt aðrar málsmeðferðarreglur, skýrari og opnari og lýðræðislegri vegna þess að fleiri sjónarmið komast að (Forseti hringir.) og þess vegna tel ég breytinguna ekki til bóta.