139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður verður að una því að hún hefur ekki einkarétt á að gagnrýna í þessum ræðustól. Það er nú bara þannig.

Ég vil segja að það sem hún sagði um stjórnarskrána, að frumvarpið gengi gegn stjórnarskránni, þá er það bara rangt. Með frumvarpinu er verið að færa ákvæði til samræmis við stjórnarskrána sem segir að forseti Íslands ákveði tölu ráðherra og skipti með þeim störfum.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún viti um það — af því hér er fyrst og fremst um klassíska reglu að ræða sem er verið að taka upp í þrískiptingu ríkisvaldsins — að svona skipan, sem hún kallar ríkisforsætisráðherraræði eða hvað það nú er, er í öllum Norðurlöndunum nema Finnlandi með góðum árangri og hefur verið í marga áratugi. Vill hún kalla forsætisráðherra Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar ríkisforsætisráðherra?

Sú skipan hefur gefist mjög vel. Við erum að taka hana upp, fara að því sem var í skýrslu rannsóknarnefndar um að breyta Stjórnarráðinu til að gera það skilvirkara. (Forseti hringir.) Við erum að fara þá leið sem við hefðum átt að fara fyrir löngu síðan, þ.e. fyrirkomulag sem hefur gilt á flestum hinna Norðurlandanna og gefist vel. (Forseti hringir.) Það er ekki einræði sem ríkir þar, virðulegi forseti.

(Forseti (ÁI): Forseti vill vekja athygli á því að klukkan í borðinu virkar ekki sem skyldi, en tímamæling fer fram á borði forseta.)