139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að ég hef ekki einkarétt á að gagnrýna úr þessum ræðustól, enda værum við þá ekki að ræða málin ef ekki mætti koma fram með málefnalega gagnrýni.

Það sem ég er, hæstv. forsætisráðherra, að gagnrýna er það lagasetningarframsal sem á sér stað í frumvarpinu. Og þótt verið sé að vísa til Norðurlandanna ætla ég líka að upplýsa um það sem ég hef farið yfir áður að miklar hefðir eru fyrir minnihlutastjórnum á Norðurlöndunum, þá eru mál líka sett fram í mikilli sátt.

Ráðherrar Norðurlandanna hafa starfsheiti. Í þessu frumvarpi er lagt til að þeir hafi ekki starfsheiti og jafnframt er lagt til að ráðuneytin heiti ekki neitt. Það á að vera ákvörðun forsætisráðherra hvað ráðherrarnir eru margir, hvaða störf þeir fara með og hvað ráðuneytin eiga að heita, bara svona eftir því hvernig vindar blása.

Svo er vísað í forsetabréf. Það er ágætt fyrirkomulag, en því var komið á árið 2007 (Forseti hringir.) í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það er ekki nýtt í þessu.