139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:01]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina spurningu til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um frumvarpið. Við vinnslu þess og yfirlegu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að frumvörp sem eru svona viðamikil að vöxtum og taka á svo mikilvægum miðlægum þáttum stjórnkerfisins á Íslandi ætti kannski að vinna með öðrum hætti. Ég tel að frumvarp eins og þetta, um Stjórnarráð Íslands, hefði ef til vill átt að vinna af einhvers konar þverpólitískri nefnd allra flokka sem hefði tekið sér góðan tíma í að vinna það með sérfræðingum í allt að eitt ár áður en það var lagt fram á þingi og rætt vegna þess einfaldlega að mikilvægt er að ná sem mestri þverpólitískri sátt um málið. Það þarf rúman tíma. Við höfum rekið okkur á að við erum svolítið að brenna inni á tíma með þetta mál.

Ég mundi gjarnan vilja sjá slík vinnubrögð í svona viðamiklum málum í auknum mæli á þingi en að þau séu ekki alltaf kolföst inni í einhverjum tímarömmum þar sem menn eru svo að ræða þau undir miðnætti við lok þingfunda. Gæti hv. þingmaður hugsað sér að frumvörp væru í auknum mæli unnin þannig, sérstaklega þau sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir stjórnkerfið? Hafa slíkar hugmyndir verið ræddar í hennar flokki? Eða telja framsóknarmenn t.d. að hin viðtekna venja að enda hér inni með mál kannski á síðasta snúningi í lok þings sé heppileg aðferð?