139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst um það að hv. þingmaður kom breytingartillögum sínum að í frumvarpinu. Mér finnst það afar gott að þingmaðurinn sá sig knúinn til þess að gera það. Frumvarpið er slíkt brot á mínum prinsippum varðandi lagasetningu að ég tók t.d. þá ákvörðun að koma ekki með breytingartillögur að frumvarpinu. Eins og ég nefndi áðan um málið um lagaskrifstofu Alþingis fékk það svo slæmar móttökur hjá ríkisstjórnarflokkunum að því var fyrir rest vísað til nefndar í þinginu og þar sofnar það. Ég ætla óhikað að leggja það fram aftur á nýju haustþingi því að þar er byrjunin.

Hvað varðar þær breytingartillögur sem liggja fyrir — ég fór yfir það áðan að það er náttúrlega dæmi um slaka lagasetningu hjá frumvarpshöfundum að leggja þurfi fram slíkan breytingartillögufjölda — þá verður atkvæðagreiðslan eins og í öðrum málum tekin fyrir á þingflokksfundi framsóknarmanna. Ég get (Forseti hringir.) ekki svarað fyrir það núna. En í þessu máli sem og öðrum skoðum við það vel.