139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tengslum við þetta mál hefur mikið verið talað um það að frumvarpið byggist á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég hef lesið þessar skýrslur spjaldanna á milli og ég finn þeim staðhæfingum ekki stað við lestur þessa frumvarps. Ég fagna því þegar ég heyri að hv. þingmaður er mér að hluta til sammála um að þetta frumvarp endurspegli ekki nema að litlum hluta þær tillögur sem fram koma í þeim skýrslum.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að þetta frumvarp sé til þess fallið að styrkja þingið. Ég hef áhyggjur af því að með því að færa ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti starfa í landinu úr höndum Alþingis og í hendur framkvæmdarvaldsins sé verið að veikja löggjafarvaldið á kostnað framkvæmdarvaldsins. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé sammála mér í þessu mati og hvort hann telji að þetta séu jákvæðar lýðræðislegar breytingar.