139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:30]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef tekið þátt í að vinna að miklum breytingum á frumvarpi til upplýsingalaga og ég tel að það sé til mikilla bóta ef það nær fram að ganga.

Varðandi þetta frumvarp um Stjórnarráðið tel ég að samhliða því ætti Alþingi að taka það upp hjá sjálfu sér ekki síðar en strax í upphafi haustþings að styrkja stöðu Alþingis meira og gera hana betri en nú. Í því samhengi er gott að nefna að forseti þingsins hefur lagt fram fjárlagatillögur Alþingis til fjármálaráðherra fyrir gerð fjárlagafrumvarpsins í haust þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum úrbótum á stöðu þingsins, ekki nægilega miklum að mínu viti en ef til vill er það fyrsta skrefið til þess að Alþingi öðlist meira sjálfstæði gagnvart fjárveitingavaldinu. Það er ansi dapurleg staða að Alþingi skuli einfaldlega taka við því sem að því er rétt af fjármálaráðherra hverju sinni. Því þarf að breyta og ég mun heils hugar taka undir allar breytingar í þá átt sem lúta að því að styrkja þingið líka.