139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan lá líka talsvert á að ná frumvarpinu út úr nefndinni. Það er einn af þeim göllum sem ég hef bent á við þetta stóra og viðamikla mál, þ.e. að málsmeðferðartíminn fyrir það hefur verið of knappur. Ég er þeirrar skoðunar að á endanum hefði náðst sátt um allar þessar breytingartillögur í nefndinni ef rýmri tími hefði gefist til að fara yfir þær og menn hefðu haft rýmri tíma til að velta virkilega fyrir sér hvers konar samfélag við viljum sjá í framtíðinni.

Því miður brunnum við einfaldlega inni á tíma með það. Það er slæmt með svona mál að það skuli gerast en þannig hafa vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga verið í áratugi. Vonandi lærum við af þessu og náum að breyta þeim vinnubrögðum í framhaldinu líka. Það er það sem er brýnt að gera frekar en að karpa um eitthvert ósætti í nefndinni einhvern dag vikunnar.