139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:37]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Í mínum huga er sú mikla vinna sem allsherjarnefnd hefur þurft að leggja í þetta mál og þær viðamiklu breytingartillögur í 18 töluliðum sem koma fram dæmi um að Alþingi er að taka til sín vald frá framkvæmdarvaldinu. Það tel ég af hinu góða. Á nákvæmlega hvaða breytingartillögur þarf að leggja mesta áherslu? Ég gæti svo sem farið yfir þær lið fyrir lið en ég tel að þær þurfi allar að ná fram að ganga, bæði breytingartillögur meiri hlutans sem og breytingartillögur Hreyfingarinnar, vegna þess að málið var þannig úr garði gert þegar það kom inn í þingið að það hefði þurft að líta svolítið öðruvísi út.

Ég tel að það hefði átt að vinna þetta öðruvísi en vinnubrögðin á Alþingi og hefðir hér gera einfaldlega ekki ráð fyrir þannig vinnu. En kannski velta menn þá í framhaldinu fyrir sér hvort ekki sé ráð að gera hlutina öðruvísi þegar um svona stór mál er að ræða.