139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

minning Stefáns Guðmundssonar.

[10:31]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns. Stefán Guðmundsson, fyrrverandi alþingismaður, varð bráðkvaddur á laugardaginn. Hann var á 80. aldursári.

Stefán Sigurður Guðmundsson var fæddur á Sauðárkróki 24. maí 1932. Foreldrar hans voru hjónin Dýrleif Árnadóttir húsmóðir og Guðmundur Sveinsson, skrifstofustjóri og fulltrúi hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Stefán lauk gagnfræðaprófi á Sauðárkróki 1949 og síðar iðnskólaprófi þar tveimur árum síðar. Sveinsbréf í húsasmíði fékk hann árið 1956 og meistarabréf 1959. Stefán vann við smíðar uns hann stofnaði ásamt fleirum trésmiðjuna Borg hf. á Sauðárkróki 1963 og var framkvæmdastjóri hennar um átta ára skeið. Þá söðlaði hann um og varð framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Skagfirðinga 1971 og til þess að því að hann settist á Alþingi.

Stefán Guðmundsson skipaði sér ungur í raðir framsóknarmanna og var fyrst kjörinn bæjarfulltrúi á Sauðárkróki árið 1966 og sat þar samfellt í fjögur kjörtímabil. Hann tók sæti ofarlega á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra þegar árið 1971 og æ síðan meðan hann gaf kost á því. Hann settist tvívegis á þing sem varamaður veturinn 1978–1979. Er forustumaður listans í kjördæminu um áratugaskeið, Ólafur Jóhannesson, ákvað árið 1979 að fara í framboð í Reykjavík lá beint við að leitað yrði til Stefáns um framboð sem helsta framámanns framsóknarmanna í Skagafirði og leiðtoga þeirra á Sauðárkróki. Hann átti sæti á Alþingi í 20 ár, fram til ársins 1999 er hann ákvað að hverfa af vettvangi landsmála. Hann sat á 23 þingum alls.

Stefán Guðmundsson gegndi fjölda trúnaðarstarfa á stjórnmálaferli sínum og skal þess eins getið að Alþingi kaus hann í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðar Byggðastofnunar, 1980–1987 og 1995 og var hann formaður hennar 1983–1987. Félagsmálum sinnti hann alla tíð, ekki síður eftir að þingmennsku lauk, og var meðal annars formaður stjórnar Kaupfélags Skagfirðinga fram að dánardægri.

Á þingmannsferli sínum átti Stefán oftast sæti í sjávarútvegs-, samgöngu- og iðnaðarnefndum og segir það nokkuð um áhuga hans og áherslur í þingstörfum. Hann var formaður sjávarútvegsnefndar efri deildar þegar sett voru ný heildarlög um stjórn fiskveiða 1990 eftir talsverðar deilur og heitar umræður.

Stefán Guðmundsson settist á Alþingi sem reyndur sveitarstjórnarmaður og jafnframt með langa reynslu af forustustörfum í atvinnulífi, einkum sjávarútvegi. Hann var fylginn sér á Alþingi í þeim málum þar sem hann einkum beitti sér, ötull og kappsamur. Hann var jafnframt glaðsinna að eðlisfari og þægilegur í umgengni við aðra þingmenn og naut þess við störf sín. Stefán unni mjög heimahéraði sínu, Skagafirði, og vann því vel og dyggilega allt til dauðadags, vinsæll og vel látinn drengskaparmaður.

Ég bið þingheim að minnast Stefáns Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]