139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

frumvarp um Stjórnarráðið.

[10:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hef áður í þessum ræðustól þakkað umhyggju fyrir mér í ráðherrastól (Gripið fram í.) og að sjálfsögðu mun ég standa undir þeirri ábyrgð svo lengi sem mér er falin hún. Þar er ekki að verða nein breyting á.

Þetta mál er á dagskrá þingsins í dag og þar er hægt að ræða það efnislega í lengra máli. Ég treysti því að þingmenn geri það. Varðandi afstöðu mína er hún óbreytt hvað það varðar að ég tel að það eigi að styrkja stöðu Alþingis í stjórnsýslu landsins og það eigi ekki að efla og styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað Alþingis. Ég minni líka á að í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem skipuð var vegna hrunsins var einmitt vikið sérstaklega að því hversu mikið vald hefði verið fært frá löggjafanum til framkvæmdarvaldsins. Það var varað við því og það var talin ein af ástæðunum fyrir því hvernig fór.

Það er alveg hárrétt að þetta frumvarp felur í sér að aukið vald er fært til framkvæmdarvaldsins, þar á meðal til forsætisráðherra eins og hv. þingmaður minntist á. Skoðun mín er óbreytt, óháð því hvort ég er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða ágætur hæstv. núverandi forsætisráðherra. Kannski verður hv. þm. Sigmundur Davíð forsætisráðherra og þá gilda áfram nákvæmlega sömu (Forseti hringir.) skoðanir mínar. Þetta er bara hluti af hinni lýðræðislegu uppbyggingu í stjórnsýslu Íslands.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að nefna þingmenn fullu nafni í ræðustóli Alþingis.)