139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

breytingar á Lagarfljóti.

[11:03]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Hvernig ráðherranum datt í hug á þessum tíma að snúa úrskurði Skipulagsstofnunar er grundvallaratriði og í sjálfu sér er allur ákvörðunartökuferillinn í kringum Kárahnjúkavirkjun kannski alvarlegasta táknmynd yfirgangs stóriðjustefnunnar á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!) Þáverandi virðulegur umhverfisráðherra var partur af þeim mjög svo skýra pólitíska vilja sem þá réði ríkjum og leiddi ákvarðanir fram óháð þekkingu, óháð upplýsingum til þeirrar niðurstöðu sem pólitíkin hafði tekið ákvörðun um að skyldi fyrir liggja. Skoða þyrfti í mjög víðu samhengi hvernig stóriðjustefnan valtaði yfir skynsemi og niðurstöður af ýmsu tagi en kannski ekki síst það sem hér er dregið fram.

Ég mundi vilja nefna fleiri þætti sem skoða þyrfti þegar áhrif á vatnasviðið þarna í heild liggja undir, því að við sjáum nú þegar, til viðbótar við það sem þingmaðurinn nefnir, landbrot meðfram Lagarfljóti, ekki bara vegna aukins framburðar vegna Kárahnjúka heldur að einhverju leyti líka vegna Lagarfossvirkjunar. (Gripið fram í.) Landbrot sjávar í Héraðsflóa eftir að framburður jökla var fluttur í Lagarfljót er líka eitthvað sem þarf skoðunar við. Þessi grimmilegu inngrip í náttúruna fyrir austan eiga eftir að hafa áhrif á lífríkið um ókomna tíð og það þarf svo sannarlega að vera á vaktinni gagnvart því.